Tenglar

12. ágúst 2015 |

Taktu möppuna þarna næst til vinstri

María Játvarðardóttir flytur erindi sitt í samkomutjaldinu í Ólafsdal.
María Játvarðardóttir flytur erindi sitt í samkomutjaldinu í Ólafsdal.

Haustið 1980 flutti ég til Noregs. Þá um haustið fékk ég bréf frá pabba þar sem hann sagði mér að hann væri að taka saman útvarpserindi um sögu Ólafsdalsskólans fyrir hundrað ára afmæli skólans. Ásgeir í Ásgarði hafði þá heimsótt hann og fært honum mikið af gögnum um skólann.

 

Þessi samantekt fyrir afmælið vatt síðan upp á sig, þannig að úr varð bók um sögu skólans og nemendatal og gaf Búnaðarfélag Íslands bókina út 1986.

 

Þegar þarna var komið sögu var pabbi búinn að vera lamaður í höndum í tæp 30 ár. Eftir að hann lamaðist fór hann að skrifa, fyrst á rafmagnsritvél með priki sem hann hafði í munninum og seinna fékk hann tölvu. Það gefur auga leið, að lamaður maður vestur í Reykhólasveit á erfitt með gagnaöflun. Við sem lifum á tímum internetsins og tölvupóstsins eigum nokkuð erfitt með að skilja hvernig þetta er hægt.

 

Ofanritað er brot úr erindi sem María Játvarðardóttir frá Miðjanesi í Reykhólasveit flutti á Ólafsdalshátíðinni á laugardag. Erindi hennar í heild fer hér á eftir.

 

 

Torfi og Guðlaug, Játvarður og Rósa

 

Þegar ég var lítil heyrði ég pabba oft tala um Torfa í Ólafsdal og orðið Torfaljáir er eitthvað sem ég heyrði snemma. Fljótlega vissi ég hvar Ólafsdalur var og heyrði um skólann sem þar hafði verið, og að afi minn, Júlíus Ólafsson, hafði verið einn af fyrstu nemendunum. Jafnframt að faðir Júlíusar, Ólafur Jónsson, hafði verið með fyrstu eiginlegu búnaðarkennsluna á landinu í Flatey. Þannig vorum við systkinin alin upp við umtal um Torfa og búnaðarkennslu.

 

Haustið 1980 flutti ég til Noregs. Þá um haustið fékk ég bréf frá pabba þar sem hann sagði mér að hann væri að taka saman útvarpserindi um sögu Ólafsdalsskólans fyrir hundrað ára afmæli skólans. Ásgeir í Ásgarði hafði þá heimsótt hann og fært honum mikið af gögnum um skólann.

 

Þessi samantekt fyrir afmælið vatt síðan upp á sig, þannig að úr varð bók um sögu skólans og nemendatal og gaf Búnaðarfélag Íslands bókina út 1986.

 

Þegar þarna var komið sögu var pabbi búinn að vera lamaður í höndum í tæp 30 ár. Eftir að hann lamaðist fór hann að skrifa, fyrst á rafmagnsritvél með priki sem hann hafði í munninum og seinna fékk hann tölvu. Það gefur auga leið, að lamaður maður vestur í Reykhólasveit á erfitt með gagnaöflun. Við sem lifum á tímum internetsins og tölvupóstsins eigum nokkuð erfitt með að skilja hvernig þetta er hægt. En pabbi var í góðu sambandi við Landsbókasafnið og þar var til safn af öllum bréfum Torfa.

 

Merkilegt er að Torfi safnaði öllum bréfum sínum og hélt saman alla ævi. Það hefur gert þá vinnu að skrifa þessa bók mögulega. Á Landsbókasafninu vann maður sem hét Tómas Helgason og hann og fleiri aðstoðuðu pabba við að safna upplýsingum um nemendur. Langur tími var liðinn frá því að skólinn starfaði og núna skil ég ekki hvernig karlinn fór að því að finna upplýsingar um alla þá sem höfðu flutt vestur um haf og fá myndir af þeim. Þarna hef ég trú á að það hafi hjálpað honum breiðfirska þrjóskan.

 

Eitt er víst, pabba fannst þetta verkefni skemmtilegt. Hann naut sín við að lesa allt um Torfa og skólann og skrifa bókina. Hann var alltaf með önnur verkefni samhliða, bóksöluna sem hann var með heima í stofu, markaskrá og fleira, en þegar þarna var komið, þá vann hann þessi verk af því að þess þurfti, en skemmti sér við skráningu sögu Ólafsdalsskóla.

 

En við þurfum að hafa eitt í huga. Pabbi var lamaður og á þessum tíma var engin formleg aðstoð við fatlað fólk í landinu nema ef það vildi flytjast á sjúkrastofnun. Það datt pabba ekki í hug. Hann var heima á Miðjanesi nema 4-6 vikur á vetri sem hann dvaldi á Reykjalundi og var þar í þjálfun.

 

Hvernig fór hann svo að þessu? Jú, hann átti fjölskyldu sem stóð við bakið á honum. Eiginkonu sem hugsaði um hann og hjálpaði honum við að fletta möppum, og gera í raun allt annan en bein fræðistörfin. Núna er að verða til nokkuð sem kallað er notendastýrð persónuleg aðstoð fyrir fatlað fólk. Pabbi hefði verið kandídat fyrir slíka þjónustu, en ekkert slíkt var í boði þá. Hann hafði aftur á móti eiginkonu, börn og barnabörn, sem stússuðu í kringum hann eftir hans fyrirsögn sem alltaf var nákvæm. „Taktu möppuna þarna næst til vinstri og aftast í henni er bréf um þetta tiltekna mál.“

 

Hann vissi alltaf nákvæmlega hvar allt var. Það sparaði tíma, það þurfti ekki að leita. Hvernig hann fór að þessu hef ég aldrei skilið. Það kom sér ágætlega að við vorum mörg og vinnan í kringum hann dreifðist nokkuð. Ef við systkinin vorum heima, þá notaði hann okkur eða barnabörnin þegar þau uxu úr grasi, en annars var það mamma sem sá um allt saman.

 

Heima á Miðjanesi eru enn gögn frá vinnslu bókarinnar, margar möppur með afritum af bréfum.

 

Það hefur auðvitað svo ótalmargt breyst síðan skólinn í Ólafsdal var starfandi. Núna berjast menntaskólarnir og háskólarnir um efnilegustu námsmennina. Á þessum tíma er sáralítil formleg menntun í landinu. Almenn fræðsluskylda er ekki komin á og það eru ekki komnir margir barnaskólar. Í upphafi bókarinnar er talað um að Torfi hafi snemma þótt svo efnilegur drengur að nauðsynlegt væri að senda hann til mennta í búvísindum svo hann gæti kennt bændum. Hann fer í nám til Skotlands og kemur heim með jarðyrkjuverkfæri og Torfaljáina, sem ég nefndi í upphafi, en þeir voru mikil bylting í slætti. Ungu mennirnir sem komu í skólann víðs vegar að af landinu voru eflaust efnilegustu ungu mennirnir úr sínu héraði og stundum líka synir fólks sem gat sent drengi sína til mennta. Þeir fóru síðan flestir heim í héruðin og fluttu með sér þekkinguna og einnig tæki sem þeir höfðu smíðað í skólanum.

 

Margir af nemendum skólans urðu kennarar víða um land. Margir sinntu landmælingum og öðrum slíkum störfum sem verkfræðingar vinna í dag. Nemendurnir voru almennt vel að sér um margt miðað við þennan tíma. Nemendur lærðu til dæmis að rækta grænmeti, sem þá var sjaldgæft.

 

Við lestur bókarinnar er margt sem kemur upp í kollinn. Það sem vakti sérstaka athygli mína var kaflinn um Guðlaugu og störf kvennanna í Ólafsdal. Öll skráningin á störfum fólksins. Þetta er að mörgu leyti í stíl við vinnu gæðastjóra nútímans. Þótt nemendur skólans hafi aðeins verið piltar, þá kemur fram í bókinni að stúlkurnar sem unnu hjá Guðlaugu hafi ekki fengið minna út úr verunni í Ólafsdal en piltarnir sem voru við nám í skólanum. Þær voru eftirsóttar sem starfsmenn eftir að hafa verið í Ólafsdal og það var eftirsótt af stúlkum að komast þangað í starf.

 

Torfi hefði aldrei getað stofnað og rekið skólann nema með aðstoð Guðlaugar, ekki frekar en pabbi hefði getað skrifað bókina án aðstoðar mömmu. Guðlaug stjórnaði öllum verkum innanhúss og vann sjálf mikið við matargerð og við að spinna.

 

Sambúð Guðlaugar og Torfa hefur verið farsæl. Ég er félagsráðgjafi og hef svo mikinn áhuga á hjónabandinu og hvernig farsælt hjónaband verður til, að ég get ekki stillt mig um að grípa niður í bókinni og lesa aðeins fyrir ykkur um sambúð Torfa og Guðlaugar:

 

Sambúð þeirra hjóna var líka svo fögur, að lengra verður varla til jafnað. Mörg dæmi mætti nefna um það, hve samrýnd þau voru. Fyrri part daga á vetrum vann húsbóndinn við kennslu og smíðar en seinni partinn sat hann önnum kafinn á skrifstofu sinni. Þá var það oft að hann brá sér niður í baðstofu og sagði við konu sína: „Ætlarðu ekki að líta upp til mín og stytta fyrir mér daginn?“ Aldrei brást þeim hin gagnkvæma virðing og nærgætni, yljuð af æskuhrifningu sem entist þeim til ellidaga og gaf þeim þrótt til að standast þá storma sem á þeim dundu, án þess að bogna eða bugast. Mörgum sem voru í Ólafsdal, munu vera í minni þær stundir þegar húsbóndinn var að koma heim úr ferðum sínum, hvort sem þær höfðu tekið lengri eða skemmri tíma. Þá var allt gert sem í húsmóðurinnar valdi stóð til þess að gera heimilið sem hlýlegast og heimkomuna sem ánægjulegasta. Gleði hennar, er hún fagnaði honum, var svo hjartanleg, að heimkoman varð sannkölluð hátíðisstund.

 

En sorgin heimsótti Torfa og Guðlaugu vissulega. Þau eignuðust 12 börn en aðeins þrjú þeirra náðu að verða 50 ára. Ég gríp aftur niður í bókinni:

 

En svo kom tímabil þeirrar reynslu sem engan hafði órað fyrir. Fyrsta sorgarfregnin barst heim að látinn væri Karl, sonur þeirra hjóna, sem stundaði nám við háskólann í Kaupmannahöfn. Svo leið eitt ár, en á næstu fjórum árum þar á eftir misstu þau eina dóttur hvert árið. Tvær dóu heima, Sigríður og Ástríður, en tvær á sjúkrahúsum, Ingibjörg og Þórdís. Margir foreldrar myndu hafa orðið bugaðir eða niðurbrotnir af slíkri reynslu. En hjónin í Ólafsdal reyndust sterk og sameinuð í sorginni eins og í gleðinni. Þau báru harma sína í hljóði, en húsmóðirin sagði eitt sinn: „Með Torfa er hægt að bera allt.“

 

Um Torfa er það að segja, að hann hefur verið ótrúlega fjölhæfur og hæfileikaríkur maður. Pabbi segir í bókinni, að hann hafi í raun verið fjögurra manna maki. Þar nefnir hann hlutverk bóndans og húsbóndans, hlutverk samvinnuleiðtogans, en hann tók þátt í að stofna verslunarmannafélag Dalasýslu, hlutverk kennslufrömuðarins og skólastjórans og hlutverk verkfærasmiðsins. Torfi leit á smíðar og smíðakennslu sem óaðskiljanlegt frá skólanum. Það var ekki nóg að kenna jarðyrkju ef bændur höfðu ekki verkfæri til að vinna með. Og sem fyrr er allt skráð, allar smíðar eru skráðar í smiðjubók Torfa. Sem dæmi má nefna, að alls eru smíðaðir 125 plógar. Seinna er plógurinn endurbættur og hann er prófaður og metinn vísindalega af þeim manni sem það best kunni.

 

17 herfi eru smíðuð á 27 árum. Ég ætla ekki að segja meira um smíðarnar, en hvet þá sem vilja kynna sér öll þessi mál skólans til að lesa bókina um Torfa. Eftir því sem ég best veit fæst hún enn hjá Bændasamtökunum.

 

Kennslubækurnar í Ólafsdal voru sumar skrifaðar eða þýddar af Torfa. Danska var kennd og síðan lásu nemendur bækur á dönsku.

 

Húsbóndinn í Ólafsdal, eins og Torfi var oftast kallaður, var mjög stefnufastur og framsýnn. Það var hart sótt að honum að taka að sér önnur verkefni, til dæmis búfræðikennara að Möðruvöllum í Hörgárdal, og einnig til að bjóða sig fram til þings.

 

Torfi var sérstaklega vinsæll og elskaður. Hann hefur haft það sem við í nútímanum köllum góða félagslega færni, en í bókinni er lýst hvernig hann ljómaði og hrósaði þegar vel gekk en ýtti kurteislega við þeim sem honum fannst liggja á liði sínu. Það segir okkur að góð félagsleg færni var ekki síður mikilvæg á þessum tíma heldur en nú.

 

Sumt af því sem Torfi var að kljást við minnir á nútímann. Gríðarlegir fjárhagserfiðleikar og mikið ströggl að fá rekstrarfé. Hann fer til Skotlands og lærir þar nýja búskaparhætti og að smíða úr járni. Ferðir til Vesturheims eru í algleymi og hann fer þangað og íhugar alvarlega að setjast að þar. Það minnir um margt á þann flutning fólks sem átt hefur á sér stað frá landinu undanfarinn áratug. Hann hætti þó við það og kom aftur heim.

 

Alltaf þegar ég kem hingað í Ólafsdal, og ekki síst á þessar hátíðir, hugsa ég að það er synd að pabbi skyldi ekki upplifa það að sjá endurreisn staðarins. Þegar hann var á lífi horfði hann heim að Ólafsdal og fylgdist með niðurníðslunni með sorgaraugum og hugsaði eflaust „nú er hún Snorrabúð stekkur“, þannig að nú þegar staðurinn hefur verið svona mikið endurreistur og virðingu Torfa og Guðlaugar sómi sýndur þá gleðst hann faðir minn á himnum, ef það er eitthvað samband þangað.

 

Kærar þakkir, þið öll sem hafið staðið að endurreisn Ólafsdals. Þetta gerðist ekki af sjálfu sér frekar en annað. Sjálfboðastörf eru vanmetin í landinu, en mér sýnist flest það sem best er gert í okkar menningu sé einmitt unnið í sjálfboðavinnu.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Oktber 2024 »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31