Tenglar

11. mars 2014 | vefstjori@reykholar.is

Tekur þátt í alþjóðlegri málflutningskeppni

Þórólfur Sigurgeir, Ásta Ísafold, Árný Lea, Grímur Már og Ragnheiður Svava.
Þórólfur Sigurgeir, Ásta Ísafold, Árný Lea, Grímur Már og Ragnheiður Svava.

Grímur Már Þórólfsson, 25 ára laganemi upprunninn á Reykhólum og líka ættaður úr Geiradal, tekur í næsta mánuði ásamt nokkrum skólasystkinum sínum við Háskólann í Reykjavík þátt í alþjóðlegri málflutningskeppni, sem nefnist upp á hollensku Willem C. Vis Int. Commercial Arbitration Moot. Lokakeppnin fer fram í Vínarborg 10.-17. apríl en áður verður keppt á nokkrum æfingarmótum í Frakklandi og Ungverjalandi. Um 250 skólar hvaðanæva úr heiminum taka þátt í keppninni en lið Háskólans í Reykjavík er eina liðið frá Íslandi.

 

Til að standa straum af kostnaðinum við ferðalagið og keppnina er mannskapurinn að safna sér farareyri með sölu á nokkrum völdum vörutegundum.

 

Foreldrar Gríms Más eru Ásta Ísafold Manfreðsdóttir frá Reykhólum og Þórólfur Grímsson frá Svarfhóli í Geiradal.

 

Móðir Ástu Ísafoldar er Ragnheiður Sigurðardóttir, systir Svönu á Reykhólum. Nefna mætti að Sigurður E. Ólafsson faðir þeirra byggði Smiðjuna vestan undir bæjarhólnum, sem núna er Sjávarsmiðjan. Móðir Sigurðar var Brandís Árnadóttir frá Kollabúðum í Þorskafirði. Hún ólst upp á Miðhúsum í Reykhólasveit en fluttist síðan til Reykjavíkur og giftist þar Ólafi Bjarnleifssyni. Áðurnefndur Sigurður sonur þeirra var ungur sendur í sveit vestur á ættarslóðir. Hann var fæddur 1923 og var meira og minna á Reykhólum allt til ársins 1957, þegar hann og eiginkona hans Ísafold Guðmundsdóttir settust að í Kópavogi.

 

Móðir Þórólfs var Jóney Svava Þórólfsdóttir frá Ólafshúsi í Króksfjarðarnesi en faðir hans var Grímur Grímsson bóndi á Svarfhóli, síðar þingvörður í Reykjavík. Þrjátíu ár eru síðan Grímur féll frá en Svava lést sumarið 2011.

 

Myndin sem hér fylgir var tekin haustið 2010. Þar er Grímur Már ásamt lítilli dóttur sinni, foreldrum sínum og systur. Talið frá vinstri: Þórólfur Sigurgeir Grímsson, Ásta Ísafold Manfreðsdóttir með ömmustelpuna Árnýju Leu Grímsdóttur og systkinin Grímur Már Þórólfsson og Ragnheiður Svava Þórólfsdóttir.

 

Allt um styrktarsöluna vegna keppnisferðarinnar er að finna hér.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Jn 2024 »
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30