Telja 16-17 milljarða hafða af öldruðum og öryrkjum
„Kjaranefnd Landssambands eldri borgara undrast alvarlegan seinagang við að leggja fram frumvarp um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslega aðstoð, eftir langa meðgöngu. Miðað við hvað frumvarpið hefur verið lengi í undirbúningi þá er búið að glata miklum tíma til leiðréttinga fyrir fólk sem treystir á almannatryggingakerfið og lífeyrissjóðina. Stefnt hafði verið að því að leggja það fram á Alþingi haustið 2012.“
Þannig hefst ályktun kjaranefndar Landssambands eldri borgara (LEB) sem Grétar Snær Hjartarson, framkvæmdastjóri sambandsins, sendi vef Reykhólahrepps til birtingar. Síðan segir:
- Núna þegar ljóst er að ekki næst að afgreiða frumvarpið á þessu þingi skorum við á verðandi Alþingi að bregðast fljótt við og afgreiða málið. Ef afgreiðsla þess dregst úr hófi munu eldri borgarar krefjast þess að bætt verði sú hækkun sem átti að koma um áramótin 2012-2013 við kynningu á frumvarpinu.
- Kjaraskerðingin frá 2009 hefur enn verið framlengd þrátt fyrir að áætlaður niðurskurður ætti að standa í 3 ár. Þessu er harðlega mótmælt og telja eldri borgarar alvarlega á sér brotið með framlengingu þessarar kjaraskerðingar.
- Áætla má að ríkið hafi með þessu sparað sem nemur á bilinu 16- 17milljörðum króna þegar þetta ár er meðtalið.Þessi upphæð hefur verið höfð af eldri borgurum og öryrkjum Það eru því engin rök að ekki séu til peningar fyrir breytingum á almannatryggingum miðað við þessar fjárhæðir.
- Hjá nokkrum stjórnmálahreyfingum er greinilegur vilji til að fórna hluta lífeyriskerfis landsmanna í þágu markmiða þeirra. Þarna er um alvarlega vanþekkingu að ræða þar sem lífeyrissjóðir eru eign sjóðfélaga en ekki til ráðstöfunar einhverra stjórnmálahreyfinga.
- Talið er að íslenska lífeyrisjóðakerfið sé mjög sterkt og hafi staðið hrunið betur af sér en hjá flestum þjóðum. Kjaranefnd LEB leggur áherslu á að landsmenn standi vörð um lífeyrissjóðina, sem munu í framtíðinni að mestu standa undir lífeyri þeirra, ef vel er á málum haldið.
Undir ályktunina ritar Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður kjaranefndar LEB, auk nefndarmannanna Björgvins Guðmundssonar, Jóns Kr.Óskarssonar, Guðrúnar Blöndal og Grétars Þorsteinssonar.