Telur árangurinn viðunandi í ljósi aðstæðna
„Það markmið sem við settum okkur í þessari kosningabaráttu hér í Norðvestukjördæmi, að tryggja Eyrúnu Ingibjörgu Sigþórsdóttur sæti á Alþingi Íslendinga, náðist því miður ekki,“ segir Einar Kristinn Guðfinnsson, annar þingmaður Norðvesturkjördæmis. Að hans mati var samt sem áður gríðarlega gott starf unnið af öllum flokksfélögunum í kjördæminu í þágu flokksins og ekki síst af hálfu Eyrúnar og félaga.
„Fyrir framlag alls þessa góða fólks erum við innilega þakklát og höfum sem veganesti í þá miklu vinnu sem fer í hönd. Eyrún hefur sýnt það og sannað í störfum sínum að sveitarstjórnarmálum og fyrir flokkinn, að hún á fullt erindi á Alþingi Íslendinga og því súrt í broti að markmiðið hafi ekki náðst. Þó tel ég raunar árangurinn í kjördæminu viðunandi í ljósi aðstæðna og miðað við landið í heild. Við bættum lítillega við okkur þegar miðað er við síðustu kosningar.“
Einar Kristinn segir flokkinn hafa glímt við mótvind allstóran hluta kosningabaráttunnar þó að hún hafi farið að snúast á síðari hlutanum eftir vasklega framgöngu Bjarna Benediktssonar. „Nú tekur við uppbyggingarstarf í þágu þings og þjóðar, bæði við landsstjórnina og innan flokksins.“
Aðspurður um hvort ekki vanti fleiri Vestfirðinga í framvarðarsveit flokksins, í ljósi þess að Eyrún náði ekki inn, segir Einar það ekki meginatriði hvaðan fólk sé. „En það má um leið segja að uppbótarþingmaður okkar Vestfirðinga með búsetu í Reykjavík sé Illugi Gunnarsson. Hann hefur mjög góðan skilning á okkar högum sem hér búum.“
► Hér er nánar rætt við Einar Kristin á fréttavefnum bb.is á Ísafirði.