Tenglar

16. desember 2016 | Umsjón

Telur leið Þ-H slæman kost

Loftmyndir ehf. / Morgunblaðið.
Loftmyndir ehf. / Morgunblaðið.

Umhverfisstofnun telur að leið Þ-H, sem Vegagerðin leggur til að nýr Vestfjarðavegur verði lagður eftir um Gufudalssveit, sé einn af verri kostunum sem til skoðunar eru með tilliti til umhverfisáhrifa. Leið Þ-H muni hafa umtalsverð og neikvæð umhverfisáhrif í för með sér. Það er vegna mikils rasks í birkiskóginum Teigsskógi, sem talinn er sérstæður og vistfræðilega mikilvægur.

 

Þannig hefst fréttaskýring Guðna Einarssonar blaðamanns í Morgunblaðinu fyrr í vikunni. Þar segir einnig meðal annars:

 

„Áhrif á Teigsskóg eru óafturkræf og telur Umhverfisstofnun að leið Þ-H sé að vissu leyti verri kostur en aðrar línur sem til álita hafa komið um Teigsskóg þar sem leið Þ-H liggur á kafla talsvert hærra í landi en fyrri línur og kallar því á auknar skeringar og fyllingar,“ segir meðal annars í nýlegri umsögn Umhverfisstofnunar til Skipulagsstofnunar um frummatsskýrslu vegna mats á umhverfisáhrifum Vestfjarðavegar milli Bjarkalundar og Skálaness.

 

Umhverfisstofnun segir að veglínan muni skerða öll landform og vistkerfi sem einkenna ströndina við vestanverðan Þorskafjörð. Hún skerði Teigsskóg þar sem hann nær milli fjalls og fjöru og skerði þar með hæfni vistkerfisins til að bregðast við breytingum, til dæmis vegna loftslagsbreytinga. Þá muni leið Þ-H einnig raska fjörum og tjörnum á Hallsteinsnesi. Vegna lítils undirlendis sé vandséð hvernig unnt verði að koma skilgreindu mannvirki fyrir á þessu svæði án þess að skerða að mestu leyti aðra nýtingu og upplifun svæðisins. Auk þess mun lína Þ-H skerða sker, hólma og eyjar í mynni Djúpafjarðar og Gufufjarðar og hafa þar verulega neikvæð áhrif á landslag og þau náttúrufyrirbæri sem vernd Breiðafjarðar nær til.

 

„Umhverfisstofnun telur verulega neikvætt að leið Þ-H liggur að mestu um svæði sem er lítt snortið af nútíma mannvirkjum og telst nánast óraskað,“ segir meðal annars í álitinu.

 

Metur jarðgöng besta kostinn

 

Fimm leiðir voru lagðar fram við mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Umhverfisstofnun bendir á að allar leiðirnar liggi um verndarsvæði og raski vistkerfum sem njóta verndar samkvæmt lögum um náttúruvernd. Leiðir H1 og D2 eru jarðgangaleiðir og skera þær sig nokkuð úr öðrum, að mati Umhverfisstofnunar, sem telur leið D2 vera besta kostinn með tilliti til umhverfisáhrifa. Þessi leið liggi á stystum kafla um svæði sem telst óraskað og henni fylgi engir tengivegir.

 

Leið Þ-H, sem Vegagerðin leggur til, á að þvera Þorskafjörð og liggja síðan út fjörðinn að vestanverðu í gegnum Teigsskóg á rúmlega sjö kílómetra kafla. Leiðin mun liggja að hluta í talsverðum landhalla. Til að koma veginum fyrir þarf að breyta landslagi verulega með skeringum og fyllingum. Utan við Teigsskóg mun leiðin fara um fjörur og tjarnir á Hallsteinsnesi. Leiðinni mun fylgja tengivegur að Djúpadal með talsverðum skeringum og fyllingum. Leið Þ-H mun síðan þvera mynni Djúpafjarðar og Gufufjarðar og raska þar skerjum, hólmum og eyjum.

 

Áætlað er að leið Þ-H muni kosta 6,4 milljarða sem er 4 milljörðum minna en næstódýrasta leiðin. Jarðgangaleiðirnar D2 og H1 hafa minnst áhrif á umhverfið en ekki er gert ráð fyrir þeim í samgönguáætlun til 2026.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Aprl 2024 »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30