Tenglar

5. ágúst 2014 | vefstjori@reykholar.is

Það er gott að koma og dveljast á Reykhólum

Amalía og Sverrir ásamt syninum Páli og dætrum hans, Amalíu og Hrefnu Láru.
Amalía og Sverrir ásamt syninum Páli og dætrum hans, Amalíu og Hrefnu Láru.

Eitt ættarmótið enn var á Reykhólum um verslunarmannahelgina, en þau eru nánast vikulegur viðburður á hverju sumri. Núna voru á ferð afkomendur Páls Helga Péturssonar (1914-1989) og Guðrúnar Karvels (1918-2011) á Laugum í Súgandafirði. Þetta voru rétt um sextíu manns, börn, tengdabörn, barnabörn og barnabarnabörn þeirra hjóna. Sami hópur (að vísu fámennari á þeim tíma, vegna þess að sakir ungs aldurs sumra voru ættarmótafærir afkomendur færri) var líka með ættarmót á Reykhólum fyrir átta árum. Páll Helgi og Guðrún eignuðust sjö börn og af þeim eru sex á lífi.

 

Gestirnir á mótinu ljúka sérstöku lofsorði á aðstöðuna í Reykhólaskóla fyrir slíkar samkomur. „Það var einmitt út af því ættarmóti sem við komum hingað aftur með ættarmót því að okkur fannst svo gott að vera hér.“

 

„Okkur líkaði afskaplega vel hérna“, sagði Sverrir Guðmundsson, tengdasonur þeirra Páls Helga og Guðrúnar og þannig einn af elstu kynslóðinni á ættarmótinu, þegar hann og Amalía Pálsdóttir eiginkona hans voru í þann veginn að halda brott í gær.

 

„Fín aðstaða hérna í skólaeldhúsinu. Hreinlega allt, aðstaðan mjög góð. Við vorum með nokkra húsbíla og hjólhýsi hérna fyrir utan, en það var fínt að gista í herbergjunum á heimavistinni. Svo er komið rafmagn hérna úti til að geta tengt við það sem er þar, sem ekki var á mótinu okkar hér á sínum tíma.“

 

Þau hjónin Sverrir og Amalía hafa líka komið ein og sér á Reykhóla á húsbílnum sínum, sem Sumarliði heitir, á hverju einasta ári mörg undanfarin ár. Þá hafa þau verið á tjaldsvæðinu og húsbílasvæðinu við Grettislaug neðan við Reykhólaþorp og líkað ákaflega vel.

 

„Svæðið hérna og héraðið er líka svo fallegt,“ segir Sverrir. „Okkur finnst svo gott að vera hérna að við höldum vissulega áfram að halda okkar ættarmót á Reykhólum.“

 

Hann segir að mannskapurinn hafi verið búinn að panta fyrir ættarmótið helgina áður, en svo var hringt til baka: „Heimafólk hafði gleymt sjálfu sér, þá voru Reykhóladagarnir. Við fluttum okkur þess vegna fram um eina viku og það truflaði okkur ekkert. Og veðrið hefur verið eins og best verður á kosið, það getur ekki verið betra. Við erum búin að vera hérna í fjóra daga og veðrið hefur verið yndislegt allan tímann.“

 

Sverrir og Amalía eru búsett syðra seinni árin en um árabil ráku þau verslunina Búð í Hnífsdal, og þekkja þannig vel til þess að reka verslun á litlum stað. Þau dáðust að vöruúrvalinu og snyrtimennskunni í Hólakaupum, en Reykhólar eru ennþá minna pláss en Hnífsdalur.

 

Myndin sem hér fylgir var tekin rétt áður en Sverrir og Amalía héldu á brott frá Reykhólaskóla á Sumarliða sínum. Með þeim á myndinni eru vinstra megin Páll sonur þeirra og dætur hans, þær Amalía og Hrefna Lára, en þau voru á öðrum húsbíl.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31