Tenglar

10. janúar 2016 |

Það var í raun Jóhanna sem „flutti okkur inn“

Jónatan, Helga Þórey og Óskar Bjarni.
Jónatan, Helga Þórey og Óskar Bjarni.
1 af 5

Í vetur bættist þriggja manna fjölskylda í hóp Reykhólabúa, þau Helga Þórey Sigurlínudóttir og Jónatan Jónsson ásamt ungum syni sínum, Óskari Bjarna. „Okkur hafði um nokkurn tíma langað að flytja úr erli og ys höfuðborgarinnar, bæði til að losna undan íþyngjandi leiguverði þar en ekki síður til að losna við stressið sem virðist leggjast eins og mara yfir mann í hvert skipti sem maður fer að nálgast höfuðstaðinn.“

 

Helga Þórey er fædd og uppalin á Akureyri og á líka miklar rætur á Sauðárkróki og í Skagafirði, en fluttist til höfuðborgarinnar fyrir áratug. Hún hefur unnið við afgreiðslu- og sölustörf, við umönnun og við leikskólakennslu, sem hún heldur sig við á Reykhólum og starfar í dag á Hólabæ. Hún hefur í hyggju að mennta sig í þeirri grein, en fyrir er hún með diplómanám bæði í förðun og heilun ásamt því að hafa kennt hugleiðslunámskeið.

 

Helga Þórey var hálft ár við lýðháskólann í Odder í Danmörku, rétt fyrir sunnan Árósa á Jótlandi, og kynntist þar Jóhönnu Ösp Einarsdóttur í Fremri-Gufudal. Og eins og Jónatan segir: Það var í raun Jóhanna sem „flutti okkur inn“.

 

Þegar Jóhanna vissi að Helga Þórey og Jónatan höfðu hug á því að flytjast út á land fór hún að senda þeim upplýsingar um laus störf og mögulegar íbúðir til leigu.

 

„Það var síðan eftir að við vorum við hjónavígslu í sumar, þar sem tveir aðrir Reykhólabúar ræddu þessi mál við okkur, að við ákváðum að skella okkur í heimsókn og „kíkja á pleisið“. Í þeirri heimsókn var okkur tekið með kostum og kynjum, bæði af Ingibjörgu Birnu sveitarstjóra og hennar starfsfólki og eins Reyni og Ásu í Hólabúð,“ segir Jónatan.

 

„Í stuttu máli, þá ákváðum við að slá til og komum hingað alflutt upp úr miðjum nóvember. Í ljós hefur komið að móttökurnar á skrifstofu hreppsins og í Hólabúð eru dæmigerðar fyrir þetta bæjarfélag, eins og líklega flestir eða allir sem hér búa vita. Við erum þess fullviss að við höfum tekið rétta ákvörðun. Sérstaklega hafa Torfi Sigurjónsson og Björk Stefánsdóttir tekið okkur undir sinn væng. Við stöndum í þakkarskuld við þau fyrir það.“

 

Jónatan er fæddur og uppalinn í vesturbæ Reykjavíkur en á ættir að rekja á Gjögur á Ströndum og til Eyrarbakka, þar sem hann eyddi ófáum sumrum sem strákur.

 

„Ég lauk stúdentsprófi frá MR og hef unnið margvísleg störf í gegnum tíðina, til að mynda afgreiðslu- og sölustörf, sendla- og akstursstörf, og lengi sem öryggisvörður. Núna starfa ég í verksmiðju Norðursalts og líkar það afskaplega vel. Mín fyrstu kynni af Reykhólum voru fyrir um tíu árum þegar ég vann sem aðstoðarmaður hjá verktaka sem skipti um þak á húsnæði Þörungaverksmiðjunnar.“

 

Jónatan er '79-árgerðin, rétt að verða 37 ára. Helga Þórey unnusta hans er módel '84, varð 31 árs í haust. Sonurinn Óskar Bjarni Jónatansson er þriggja og hálfs árs.

 

Niðurlagsorðin eru skýr: „Hér á Reykhólum er yndislegt að búa og við hlökkum til að vera hér um fyrirsjáanlega framtíð.“

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31