Tenglar

17. apríl 2009 |

Þaraböð á Reykhólum fá einn hæstu kvennastyrkjanna

Frá afhendingu hæstu styrkjanna í dag.
Frá afhendingu hæstu styrkjanna í dag.

Þaraböð á Reykhólum eru meðal þeirra viðskiptahugmynda sem fá úthlutað úr sjóði félagsmálaráðuneytis til atvinnumála kvenna að þessu sinni. Verkefnið fær 1,5 milljónir króna og er eitt þeirra fimm sem hæstu styrkina hljóta. Að hugmyndinni að þaraböðunum og útfærslu hennar standa þær Sólrún Sverrisdóttir og Svanhildur Sigurðardóttir á Reykhólum. Tvö af hinum verkefnunum fjórum sem hæstu styrkina fá eru einnig ekki allfjarri Breiðafirði. Annars vegar þróun hugmyndar um rjómabú á Erpsstöðum í Dölum til að framleiða ýmsar vörutegundir eins og ís, eftirrétti og osta (1,8 milljónir) og hins vegar baðhús sem nýtir heilsuvatnið í Stykkishólmi (1,5 milljónir).

 

Tvær viðskiptahugmyndir fá úthlutað styrkjum upp á tvær milljónir króna. Annar þeirra er til vöruþróunar og markaðssetningar á umhverfisvænum byggingareiningum sem geta nýst sem skjól og tengst saman í stærri skýli, lengju eða hring. Hinn styrkurinn er til þróunar táknmálsvefjar þar sem hægt er að læra táknmál og fræðast um menningu og sögu táknmálsins.

 

Í ár barst 261 umsókn en umsóknir hafa aldrei verið fleiri síðan byrjað var að veita styrkina árið 1991 að frumkvæði Jóhönnu Sigurðardóttur þáverandi félagsmálaráðherra. Nú voru til úthlutunar 25 milljónir króna. Samtals var úthlutað til 38 viðskiptahugmynda og nema hæstu styrkirnir tveimur milljónum króna en þeir lægstu 300 þúsundum króna.


Sköpunarkraftur og kvenauður mikill á Íslandi
 

Ásta R. Jóhannesdóttir félagsmálaráðherra afhenti styrkina við athöfn í Iðnó í dag og sagði að það væri „svo sannarlega mikil ástæða til þess nú að ýta undir frumkvöðlastarf og uppbyggingu nýrra atvinnutækifæra“. Ráðherra hrósaði umsækjendum fyrir hugmyndaauðgi og sagði að verðlaunahugmyndirnar „sýndu svo ekki væri um villst að á Íslandi væri sköpunarkraftur og kvenauður mikill“.

 

Síðan styrkveitingarnar hófust fyrir 18 árum hefur fjöldi kvenna hlotið styrki til verkefna víðs vegar um landið. Óhætt mun að fullyrða að þeir hafi oft skipt sköpum um framtíð, vöxt og viðgang góðra atvinnuhugmynda. Styrkirnir eru ætlaðir sem mótvægisaðgerð til að skapa konum tækifæri í viðskiptum og auka aðgengi þeirra að fjármagni.


Skal vera stjórnað af konum
 

Um styrkina til atvinnusköpunar kvenna gilda þær reglur, að styrkhæf verkefni skulu vera í eigu kvenna að minnsta kosti til helminga og stjórnað af konum. Þá skal verkefnið fela í sér atvinnusköpun til frambúðar og vera nýmæli á því sviði sem um ræðir. Auk þess eru gerðar kröfur um að viðskiptahugmyndin sé vel útfærð, markmið skýr og leiðir að þeim vel útfærðar.

 

Myndin er tekin við afhendingu hæstu styrkjanna í Iðnó í dag. Ásta R. Jóhannesdóttir félagsmálaráðherra er lengst til vinstri á myndinni en þær Sólrún Sverrisdóttir og Svanhildur Sigurðardóttir eru nr. tvö og þrjú frá hægri. Myndin er af vef félags- og tryggingamálaráðuneytisins. Sjá nánar hér.

 

Athugasemdir

Steinunn Ó. Rasmus, laugardagur 18 aprl kl: 11:03

Til hamingju með styrkinn Svana og Sólrún

Ingibjörg Þór, laugardagur 18 aprl kl: 12:31

Frábært! til hamingju

Magga og Beggi, laugardagur 18 aprl kl: 13:33

Þetta er glæsilegt, til hamingju með styrkinn

Einar Örn Thorlacius, Hvalfjarðarsveit, mnudagur 20 aprl kl: 08:18

Þetta gladdi mig mikið. Áfram með smjörið! Ég hef alltaf haft tröllatrú á Reykhólum.

Guðrún Guðmundsdóttir, rijudagur 21 aprl kl: 10:56

Glæsilegt hjá ykkur. Þið standið ykkur vel!

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30