Tenglar

18. júlí 2009 |

Þátttakan í Bátadögum 2009 kom mjög á óvart

Mun fleiri bátar en búist hafði verið við tóku þátt í hinum breiðfirsku Bátadögum um síðustu helgi. Lagt var upp á laugardagsmorguninn frá Stað á Reykjanesi út í Breiðafjarðareyjar og gist í Flatey um nóttina. Fyrri daginn var dýrðarveður um allan Breiðafjörð en á leiðinni til baka seinni daginn var kaldaskítur á móti og talsverður barningur. Bátadagar Reykhólamanna eru helgaðir súðbyrðingum en það eru trébátar þar sem borðin skarast. Bæði er hér um að ræða gamla báta sem haldið hefur verið við eða gerðir hafa verið upp eða þá nýja og nýlega báta smíðaða að gömlu lagi.

 

Fyrsti vísirinn að Bátadögum var haldinn fyrstu helgina í júlí í fyrra, en þá brugðu menn sér á sjó frá Reykhólahöfn. Grundvöllur Bátadaga er Bátasafn Breiðafjarðar á Reykhólum. Síðustu árin hefur verið unnið kappsamlega að uppbyggingu þess undir forystu Aðalsteins Valdimarssonar, liðlega sjötugs skipasmiðs á Reykhólum, sem er úr Breiðafjarðareyjum og kominn af breiðfirskum skipasmiðum í beinan karllegg að langfeðgatali.

 

„Fyrri daginn gekk ferðaáætlunin alveg eftir“, segir Aðalsteinn. „Þegar talið var á útleiðinni í Látrum [Hvallátrum] voru 22 trébátar í hópnum en auk þess voru allmargir aðrir bátar, bæði plastbátar og tuðrur. Alls voru um 110 manns í ferðinni á öllum bátum, eftir því sem næst verður komist. Við komum í Skáleyjar og fengum þar veitingar, síðan í Látur og Svefneyjar og loks í Flatey, þar sem mannskapurinn gisti um nóttina.“

 

Daginn eftir var lagt í hann heim á leið og þá var kominn kaldaskítur sem herti og var orðið allhvasst þegar komið var upp á Staðarvíkina.

 

„Ferðin gekk alveg áfallalaust nema hvað vélar í tveim bátum gáfu sig þannig að draga þurfti þá í land. Þarna var einfaldlega um að ræða gamlar og slitnar vélar sem voru að syngja sitt síðasta. Auk þess var eitthvað að hjá tveimur öðrum bátum þannig að einn varð eftir í Flatey og annar í Látrum. Þeir voru skildir eftir til þess að vera ekki að hætta á neitt.“

 

Einn ferðalanganna lét svo um mælt, að úti á Breiðafirði á laugardaginn hefði verið Majorkaveður.

 

„Ég þekki ekki Majorkaveður en ég þekki breiðfirskt góðviðri og þetta var eins og það gerist best fyrri daginn. Með mér á bátnum voru hjón sem eru óvön svona ferðum á smábátum og þau sögðu að það væri gott að fá eina með öllu, því að þau fengu bæði lognið og síðan svolítið af hinu seinni daginn. Ég veit ekki um neinn sem þótti ekki gaman, enda var leikurinn til þess gerður“, segir Aðalsteinn Valdimarsson.

 

Þátttakan var mun meiri en búist var við. „Það voru fimmtán trébátar búnir að melda sig en þrír af þeim komu ekki. Hins vegar urðu trébátarnir tuttugu og tveir þannig að tíu komu án þess að gera boð á undan sér.“

 

Aðalsteinn segir að stefnt sé að svipaðri ferð að ári þó að áætlunin verði væntanlega eitthvað önnur.

 

„Ætlunin er að framvegis verði breiðfirsku bátadagarnir árviss viðburður fyrstu eða aðra helgina í júlímánuði. Það fer þá eftir því hvernig stendur á sjó hvor helgin verður fyrir valinu hverju sinni. Það sem batt alltaf Eyjamanninn voru sjávarföllin.“

 

Myndirnar sem hér fylgja tók Óskar Steingrímsson á Reykhólum, sem var formaður á einum af gömlu bátunum í ferðinni. Smellið á myndirnar til að stækka þær. Þessar myndir er líka að finna undir Ljósmyndir > Myndasyrpur > Bátadagar 11.-12. júlí 2009 í valmyndinni hér vinstra megin. Margfalt fleiri myndir úr ferðinni má skoða hér á Flickr-ljósmyndasíðu Óskars.

 

Sjá einnig:

04.07.2008  Bátadagar á Reykhólum um helgina

08.06.2008  Lentu í sjónum í reynslusiglingunni

06.06.2008  Bátasafn Breiðafjarðar leitar eftir liðsauka

Bátasafn Breiðafjarðar á Reykhólum

Vefur Bátasafns Breiðafjarðar á Reykhólum

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31