Tenglar

16. maí 2017 | Sveinn Ragnarsson

„Þegar hausinn er farinn af er þetta bara matur“...

 

Fimmtudaginn 18. maí klukkan 16:00 ætlar þjóðfræðingurinn Anna Björg Ingadóttir að kynna meistaraverkefni sitt, vefsíðuna Reykhólahreppur.com sem fjallar um samfélagið í Reykhólahreppi, í Safnahúsinu að Hverfisgötu 15 í Reykjavík. Anna flutti til Reykhóla 2014-2016 og tók myndbandsviðtöl við 19 einstaklinga, heimafólk, aðflutt og brottflutt til að kanna hvort og þá hvernig þetta fólk tengdist Reykhólahreppi tilfinningaböndum umfram aðra staði. Ásamt myndbandsviðtölum eru ljósmyndir frá hreppnum, bæði landslagi sem og fólki við leik og störf ásamt stuttum textum sem kynna viðmælendur.

 

Hún veltir fyrir sér hvað gerir samfélag að góðu samfélagi til að búa í? Hvers vegna staðurinn skipti fólk svona miklu máli? Hvers vegna brottfluttir komi oft í heimsókn? Hvers vegna við verjum okkar stað með kjafti og klóm þegar einhver talar illa um hann? Og hvers vegna bara við megum tala illa um staðinn við aðra staðarbúa á meðan utanaðkomandi mega það ekki?

 

Læknirinn kemur eftir hádegi á mánudögum og þá opnar Landsbankinn útibúið sitt sem er eitt herbergi á hreppsskrifstofunni. Þess á milli er best að þurfa hvorki lækni né pening en þetta skipti íbúana litlu máli enda þessu vanir. Þeir voru meira uppteknir af væntanlegri vegalögn, sauðburði eða leitum og kipptu sér lítið upp við smámuni sem þjóðfræðinemanum fannst mikið mál.

 

„Þegar hausinn er farinn af er þetta bara matur“ sagði bóndinn Indíana á meðan hún hrærði víðfrægu bjúgnablönduna sína en sagði samt að uppáhalds rollurnar hennar færu nú í moldina en ekki á diskinn.

 

Á vefsíðunni má einnig finna ljósmyndir og myndbönd sem geyma safn minninga, sögur, frásagnir að ógleymdum hverfandi menningararfi eins og bjúgnagerð, dúnhreinsun og hvernig selanetin voru riðin uppá gamla mátann.

 

Allir eru hjartanlega velkomnir á fyrirlesturinn og er frítt inn á hann.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31