Tenglar

13. apríl 2012 |

Þér hrútar

Rebekka á Stað, Kristján í Gautsdal og Vilberg á Hríshóli.
Rebekka á Stað, Kristján í Gautsdal og Vilberg á Hríshóli.
1 af 5

Verðlaun fyrir bestu hrútana í þremur flokkum voru veitt á aðalfundi Sauðfjárræktarfélags Reykhólahrepps í síðustu viku. Vilberg á Hríshóli fékk fyrstu verðlaun í flokki mislitra hrúta, Kristján í Gautsdal í flokki kollóttra hrúta og Staðarbúið í flokki hyrndra hrúta. Karl á Kambi, Þórður í Árbæ, Leifur í Djúpadal og Einar í Fremri-Gufudal áttu hrúta í sætum tvö og þrjú.

 

Meðal gesta á fundinum var Lárus Birgisson frá Búnaðarsamtökum Vesturlands. Kaffiveitingar voru að hætti Fríðu á Stað.

 

Myndirnar tók Indiana Ólafsdóttir á Reykhólum.

 

Hér skal skeytt kvæðinu Þér hrútar sem Guðmundur Ingi Kristjánsson bóndi og skáld á Kirkjubóli í Bjarnardal í Önundarfirði orti fyrir liðugum áttatíu árum. Varla hefur nokkur maður kveðið betur eða meira um íslenskan landbúnað og lífið og starfið í sveitum. Athygli einhverra kann að vekja, að skáldið þérar hrútana sína.

 

 

Þér hrútar

 

Þér hrútar, ég kveð yður kvæði.

Ég kannast við andlitin glöð,

er gangið þér allir á garðann

að gjöfinni, fimmtán í röð.

Í heyinu tennurnar hljóma

við hornanna leikandi spil.

Það bylur í jötunnar bandi

og brakar við stein eða þil.

 

Í hóp yðar stöðvast ég stundum

og stend yður dálítið hjá.

Ég hallast við bálkinn og horfi

í hrútsaugun skynug og blá.

Ég bökin og bringurnar spanna

og blíðlega strýk yfir kinn.

Þér heilsið með hornum og vörum.

Hver hrútur er félagi minn.

 

Ég veit yðar látbragð og leiki,

er losuð er fjárhúsavist.

Þá gangið þér greiðir í túnið

og gleðjist við atlögur fyrst.

og margur er merktur og særður,

en minnstur sá hrútur, er veik.

Og hugfanginn horfði ég löngum

á hornanna blóðuga leik.

 

Svo fylgi ég ferlinum lengra.

Þá fagnið þér vorlífsins hag,

er fetið þér snöggir til fjalla

einn farsælan góðviðrisdag.

Í háfjalla hlíðum og drögum

er hrútanna kjarnmikla beit.

Og sælt er að standa uppi á stalli

og stara yfir kyrrláta sveit.

 

Er sólríku sumrinu hallar,

þá sést yðar útigangsbragð.

Þér komið af öræfum allir

með aurugan, blaktandi lagð.

Þótt gott væri hnjúkinn að gista

við gróður og útsýni hans,

þá lutuð þér herskáum hundum

og hrópyrðum smölunarmanns.

 

Þar komið þér kátir og feitir.

Ég kannast við andlitin glöð,

er haldið þér allir sem hópur

að húsunum, fimmtán í röð.

Á veggjunum villist þér ekki,

en vitið um hurðir og þil.

Svo heilsið þér herbergjum yðar

með hornanna leikandi spil.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« September 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30