Þér hrútar, ég kveð yður kvæði
Hrútaverðlaun Sauðfjárræktarfélags Reykhólahrepps, sem veitt voru á aðalfundi félagsins í vikunni, féllu öll í skaut þremur bæjum, þ.e. Árbæ, Félagsbúinu á Stað og Fremri-Gufudal. Indiana Svala Ólafsdóttir á Reykhólum lét af starfi ritara í stjórn félagsins en Árný Huld Haraldsdóttir á Bakka í Geiradal tók við. Eiríkur Snæbjörnsson á Stað gegnir áfram formennsku og Karl Kristjánsson á Kambi starfi gjaldkera.
Gestur fundarins var Lárus Birgisson, starfsmaður Ráðgjafamiðstöðvar landbúnaðarins (RML). Hann flutti fræðsluerindi og fór yfir helstu atriði varðandi niðurstöður skýrsluhalds félagsins.
Þannig féllu verðlaun fyrir bestu lambhrútana haustið 2015:
Kollóttir hrútar
1.-3. verðlaun: Árbær
Hyrndir hrútar
1. verðlaun: Félagsbúið Stað
2. verðlaun: Félagsbúið Stað
3. verðlaun: Fremri-Gufudalur
Mislitir hrútar
1. verðlaun: Félagsbúið Stað
2. verðlaun: Fremri-Gufudalur
3. verðlaun: Árbær
Fundurinn var sem fyrr haldinn á bókasafninu á Reykhólum. Á fyrstu myndinni eru fulltrúar búanna þriggja: Til vinstri eru Svandís Reynisdóttir og Einar Hafliðason í Fremri-Gufudal með tvö dætrabörn, þau Svandísi Björgu (dóttur Hafrósar) og Einar Val (son Jóhönnu), síðan Rebekka Eiríksdóttir á Stað og Þórður Jónsson í Árbæ.
Rétt um þessar mundir eru liðin 85 ár (undir vor 1931) síðan sveitaskáldið góða Guðmundur Ingi Kristjánsson á Kirkjubóli í Bjarnardal í Önundarfirði orti kvæðið fræga sem hefst þannig: Þér hrútar, ég kveð yður kvæði ...