Tenglar

29. mars 2011 |

Þingsályktunartillaga um „þjóðargarð“

Af vef Landmælinga Íslands (lmi.is).
Af vef Landmælinga Íslands (lmi.is).
Aðstandendur undirskriftasöfnunarinnar til stuðnings Leið B á Vestfjarðavegi nr. 60 um Reykhólahrepp hafa sent vefnum tillögu til þingsályktunar ásamt greinargerð, með ósk um birtingu. Á fundi á Patreksfirði á föstudag var þingmönnum afhentur afrakstur söfnunarinnar, um eitt þúsund undirskriftir. Upphafsmálsgrein sem fylgir umræddri tillögu til skýringar er á þessa leið: „Vegna framkominnar tillögu til þingsályktunar frá Merði Árnasyni og Róbert Marshall, þingskjal 1088, 623. mál, um þjóðgarð við Breiðafjörð norðanverðan, er fram komin ný tillaga til þingsályktunar um „þjóðargarð“ og er leitað að flutningsmönnum tillögunnar á Alþingi.“   - Sjá athugasemd umsjónarmanns vefjarins hér neðst.

  

Tillaga til þingsályktunar um „þjóðargarð". Þjóðargarður er garður þar sem eru einstakar náttúrperlur, bæði FÓLK, gróður, náttúrumyndanir og einstakar þjóðargersemar sem ber að gera aðgengilegar þjóðinni án hindrana.

 

Alþingi felur umhverfisráðherra að undirbúa stofnun „þjóðargarðs“ í sveitarfélögunum Vesturbyggð og Tálknafirði. Ráðherra lýsi undirbúningi sínum fyrir Alþingi í formi lagafrumvarps eða skýrslu fyrir árslok 2011. Jafnframt verði innanríkisráðherra falið að gera þær breytingar á lögum sem til þarf, til að gera samgöngur að þessum nýja „ÞJÓÐARGARÐI“ fullboðlegar þeim Íslendingum sem þjóðargarðinn vilja sækja heim, m.a. með veglagningu um Teigsskóg samkvæmt svokallaðri B-leið og bundnu slitlagi um þau vegstæði sem þegar eru til umfjöllunar og hönnunar hjá Vegagerðinni. Fjármálaráðherra verði falið að undirbúa strax fjármögnun þessara framkvæmda svo hægt verði að ráðast í þær hið allra fyrsta.

 

Greinargerð

Í sveitarfélögunum Vesturbyggð og Tálknafirði býr FÓLK sem er einstakt fyrir margar sakir. Ekkert af þessu fólki er að finna annars staðar á Íslandi, þ.e. aðeins er til eitt eintak af hverjum svona einstaklingi. Þetta FÓLK hefur sýnt einstaka þrautseigju og útsjónarsemi við að lifa af við aðstæður sem m.a. hið opinbera hefur gert afar erfiðar, svo erfiðar að lífsgæði og búsetuskilyrði eru langt undir þeim viðmiðum sem sett eru t.d. á suðvesturhluta landsins. Rétt væri að hefja hið fyrsta rannsókn á hvað veldur þessari útsjónarsemi og þrautseigju ef vera kynni að það kæmi íslensku þjóðinni að gagni í því uppbyggingarstarfi sem nú er í gangi eftir hrun íslenska samfélagsins. Það hrun var ekki af völdum íbúa suðurhluta Vestfjarða heldur þvert á móti.

 

Náttúra svæðisins er einstök og þarf ekki að telja upp hér hvaða náttúrperlur eru huldar íbúum utan svæðisins vegna þess að á undanförnum áratugum hafa þeir ekki treyst sér til að heimsækja svæðið vegna stórtjóns sem þeir valda á eigum sínum með því að aka ófæra, áratugagamla vegi sem þeir telja óboðlega. Tilgangurinn með tillögu þessari um stofnun „þjóðargarðs“ er að opna fyrir Íslendingum og erlendum gestum þjóðarinnar þær einstöku náttúruperlur sem þeir hafa ekki haft aðgang að, hvort heldur það eru einstakar hríslur í Teigsskógi, hrútaber, bláber eða sjálft Látrabjarg.

 

Jafnframt er það tilgangur með tillögu þessari að vernda búsetu þess einstaka fólks sem hefur um aldir barist við manngert og ómanngert mótlæti en náð að lifa hamingjusömu lífi og komið kjarnmiklum Íslendingum á legg, sem margir hverjir hafa verið meðal fremstu manna þjóðarinnar á ýmsum sviðum.

 

Fari sem horfir og opinberir aðilar og einstaka þingmenn haldi áfram að einelta sunnanverða Vestfirði með tillögum sínum gegn samgöngubótum og eðlilegum lífsskilyrðum, leggst byggð hér af innan fárra ára. Þá þurfa homo sapiens sem hafa átt hér heima að leita sér nýrrar búsetu, við önnur skilyrði, sem kannski alls ekki henta þessum einstaka stofni Íslendinga. Líklegast er að stofninn flytti á sunnanvert landið og félli þar inn í fjöldann, óþekkjanlegt innan um „latte-lepjandi“ sjálfskipaða verndardýrlinga sem hafa ekki skilning á því að maðurinn er jú hluti af þeirri náttúru sem hann býr í. Seint verður það sagt um sunnanverða Vestfirði að þar séu sporgöngumenn um eyðileggingu á íslenskri náttúru heldur þvert á móti.

 

Þannig flutt á fundi um samgöngumál á Patreksfirði þann 25. mars 2011. Leitað er að flutningsmönnum tillögunnar á Alþingi.

  
- Haukur Már Sigurðarson, íbúi í Vesturbyggð.

 

Sjá einnig:
28.03.2011  Verulegur hluti Reykhólahrepps þjóðgarður?

 

Aths.:

Umsjónarmanni vefjar Reykhólahrepps þykir rétt að taka hér fram, að vefurinn / umsjónarmaðurinn tekur í fréttaflutningi enga afstöðu til umdeildra mála. Reynt er einfaldlega að birta fréttir af málum sem snerta Reykhólahrepp á einn eða annan hátt og leyfa ólíkum sjónarmiðum að njóta sín. Þannig hafa hér á vefnum verið birtar margar fréttir varðandi hugmyndir að nýju leiðarvali á Vestfjarðavegi nr. 60 um Reykhólahrepp og deilumál í því efni, án þess að afstaða hafi verið tekin til þeirra. Tillaga sú ásamt greinargerð, sem birt er hér að ofan, er ljóslega háðsádeila, en slíkt er gamalkunn og viðurkennd aðferð í málafylgju.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31