Tenglar

24. nóvember 2012 |

„Þingvallavatn er nánast laust við mink“

Við Þingvallavatn. Reynir gaukar góðgæti að villtum stokkandarkollum sem éta úr lófa hans. Ljósm. Hrafnhildur Reynisdóttir.
Við Þingvallavatn. Reynir gaukar góðgæti að villtum stokkandarkollum sem éta úr lófa hans. Ljósm. Hrafnhildur Reynisdóttir.
1 af 3

Undir ofangreindri fyrirsögn er í Morgunblaðinu í dag greint ítarlega frá minkasíum og minkaveiðum Reynis Bergsveinssonar frá Gufudal í Reykhólahreppi. Þar segir m.a.: „Við sjáum alveg greinilegan mun á fuglalífinu og heyrum það sama á sumarhúsaeigendum,“ sagði Ólafur Örn Haraldsson, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum. Hann kvaðst hafa haldið uppi spurnum á meðal sumarhúsaeigenda um breytinguna. „Ég held að það sé samdóma álit að fuglalíf við vatnið og á vatninu sé fjölskrúðugra og ríkulegra en það var.“ Ólafur segir að breytingin sé þökkuð fækkun minka og að hún sjáist best á vatnafuglum.

 

„Ég er mjög ánægður með framtakssemi og árangur Reynis,“ sagði Ólafur um minkaveiðar Reynis Bergsveinssonar. Hann hefur farið með Reyni að vitja um minkasíur og eins farið með mönnum sem unnu minkagreni með hefðbundnum aðferðum. Ólafur kvaðst telja að veiðiaðferð minkasíunnar sé mun mannúðlegri, sé yfirhöfuð hægt að tala um mannúð í þessu sambandi.

 

[Innskot: Sjá hér neðst viðauka frá Reyni í samtali við vef Reykhólahrepps.]

 

Höfundur þessarar tveggja síðna umfjöllunar í Morgunblaðinu er Guðni Einarsson blaðamaður. Undirfyrirsagnir eru „Minkasíur Reynis Bergsveinssonar hafa skilað miklum árangri við veiðar á mink á Þingvöllum“ og „Gjörbreyting varð á fuglalífi í þjóðgarðinum, einkum vatnafugla, eftir að minkunum fækkaði“. Auk Ólafs Arnar Haraldssonar þjóðgarðsvarðar er rætt við Reyni sjálfan og Jóhann Jónsson, bónda í Mjóanesi við Þingvallavatn.

 

„Það leynir sér ekki að minknum hefur fækkað,“ segir Jóhann í Mjóanesi. „Ég hef ekki orðið var við mink undanfarin tvö ár. Fuglalífið hefur alveg gjörbreyst. Mikið af öndum með unga eins og var hér í sumar. Það er allt annað en var upp á fuglalífið að gera.“

 

Jóhann sagði að mikið væri af fugli í Mjóanesi, meðal annars óðinshanar og margar andategundir. „Það virtist vera mikið af ungum hjá þessum fuglum í sumar,“ sagði Jóhann. Hann sagði alveg greinilegt að þessi umskipti megi þakka minni mink á svæðinu. „Þegar minkur er hérna þá kemst ekki upp neitt eða mjög lítið af ungum.“

 

Reynir Bergsveinsson lagði fyrst út fimm minkasíur við Þingvallavatn árið 2004. Hann fjölgaði síunum ár frá ári og árið 2008 voru þær orðnar 54 talsins og þá náðu síurnar yfirhöndinni gagnvart minkastofninum, sem sást í því að ársveiðin fór að minnka. Hún hélt áfram að minnka þótt síunum væri fjölgað, en þær voru 70 talsins í fyrra.

 

Veiðarnar við Þingvallavatn hafa verið hluti af tilrauna- og rannsóknarverkefninu Ölfus-Öxará-Grímsnes. Reynir segir að verkefninu sé nú lokið eftir átta ára vinnu. Það var unnið með tilstyrk Þingvallaþjóðgarðs, Orkuveitu Reykjavíkur, Landsvirkjunar og fleiri. Reynir er nú að vinna úr gögnum og undirbúa birtingu niðurstaðna rannsóknarinnar.

 

Reynir segir allt í óvissu um hvort áfram verða stundaðar veiðar með minkasíum á Suðurlandi, á svæði sem er á annað þúsund ferkílómetra. Tvö sveitarfélög, Grímsnes- og Grafningshreppur og Rangárþing ytra, hafa gefið í skyn að svo verði ekki innan þeirra vébanda.

 

„Peningahliðin hefur ekki verið mín sterka hlið,“ sagði Reynir. Hann kvaðst verða var við það í sveitarfélögunum, að því meir sem hann veiði í minkasíurnar, því erfiðara verði að semja við þau. Reynir tekur fram að þarna spili inn í hagsmunir ráðinna veiðimanna í sveitarfélögunum sem telji sig missa spón úr aski sínum.

 

Hér eru aðeins birtar glefsur úr úttektinni og viðtölunum í Morgunblaðinu í dag. Myndirnar sem hér fylgja eru í blaðinu.

 

 

Viðauki:

 

Umsjónarmaður þessa vefjar hringdi í dag í Reyni frá Gufudal vegna þessarar umfjöllunar í Morgunblaðinu. Hann óskaði eftir því að koma eftirfarandi á framfæri til viðbótar: „Fyrir um tíu árum komst sá orðrómur á kreik hérlendis, að reglur Evrópusambandsins bönnuðu að minkum væri drekkt, og enn eru einhverjir sem halda það. Þetta er alrangt, slíkt er ekki til í neinum reglum ESB og hefur aldrei verið.“

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Oktber 2024 »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31