Tenglar

30. nóvember 2011 |

Þjóðgarðstillagan fellur í mjög grýtta jörð

Kort úr greinargerðinni með tillögunni.
Kort úr greinargerðinni með tillögunni.

Forsvarsmenn sveitarfélaga á sunnanverðum Vestfjörðum undrast mjög þau vinnubrögð, að á Alþingi skuli lögð fram tillaga þess efnis að umtalsverður hluti Reykhólahrepps skuli gerður að þjóðgarði, án nokkurs samráðs við þá sem hlut eiga að máli. Þingmennirnir Róbert Marshall og Mörður Árnason lögðu tillöguna fram seint á síðasta vetri. Á fundi umhverfis- og náttúruverndarnefndar Reykhólahrepps í gær var tekin fyrir umsagnarbeiðni frá umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis, dagsett 17. nóvember, og eftirfarandi bókað:

 

„Nefndin lýsir furðu sinni á því að aðilar komi fram með frumvarp til verndunar svæða án samráðs við sveitarstjórn og íbúa. Ákvörðun um verndun svæða á að vera ákvörðun sveitarstjórnar, íbúa sveitarfélagsins og þeirra fagaðila sem þau hafa leitað til.“ Bent er á að skipulagsvaldið sé hjá sveitarfélögunum og samkvæmt nýsamþykktu aðalskipulagi Reykhólahrepps sem gildir til 2018 sé ekki gert ráð fyrir þjóðgarði á umræddu svæði.

 

Á síðasta fundi sínum mótmælti hreppsnefnd Tálknafjarðarhrepps „yfirgangi einstakra þingmanna gagnvart sjálfræðisrétti og skipulagsvaldi sveitarfélaga“. Bókað var að „slík framkoma“ gangi „þvert á vilja stjórnvalda á sveitarstjórnarstigi, sem og hjá framkvæmdavaldi, að stunda samráð á öllum stigum“.

 

Jafnframt tók hreppsnefnd Tálknafjarðarhrepps undir eftirfarandi bókun bæjarráðs Vesturbyggðar sem gerð var skömmu eftir að tillagan kom fram:

 

„Bæjarráð Vesturbyggðar lýsir undrun sinni á framkominni þingsályktunartillögu frá Róbert Marshall og Merði Árnasyni um stofnun þjóðgarðs við norðanverðan Breiðafjörð á svæðinu milli Þorskafjarðar og Vatnsfjarðar og því að ekki sé haft samráð við íbúa svæðisins og hagsmunaaðila um svo afdrifaríka tillögu sem hafa mun áhrif á svæðið allt.“

 

Þingsályktunartillaga Róberts og Marðar er svohljóðandi:

 

„Alþingi felur umhverfisráðherra að undirbúa stofnun þjóðgarðs við norðanverðan Breiðafjörð, á svæðinu milli Þorskafjarðar og Vatnsfjarðar. Ráðherra lýsi undirbúningi sínum fyrir Alþingi í formi lagafrumvarps eða skýrslu fyrir árslok 2011.“

 

Tillögunni fylgir ítarleg greinargerð. Þar kemur fram að að landsvæði þjóðgarðsins skuli ná frá vestanverðum Þorskafirði um Djúpafjörð, Gufufjörð, Kollafjörð, Kvígindisfjörð, Skálmarfjörð, Vattarfjörð, Kerlingarfjörð, Mjóafjörð, Kjálkafjörð og Vatnsfjörð, og svo langt upp í dali og hálendi að norðan sem hæfa þyki.

 

„Það er verið að leggja til þjóðgarð án nokkurs samráðs við sveitarfélögin og landeigendur sem eiga þarna land. Við erum að vinna að því að byggja upp þjóðgarð á Látrabjargi og að því koma allir hagsmunaaaðilar, en sú ákvörðun er ekki sett með lögum frá Alþingi,“ segir Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir, oddviti Tálknafjarðarhrepps, í samtali við bb.is á Ísafirði í dag.

 

„Ef tillagan verður samþykkt gæti það sett vegagerð á svæðinu í uppnám. Vegir um þjóðgarða eru ekki byggðir upp með hámarksöryggi í huga og hraða sem þjóðvegir hafa almennt. Það verður aldrei of oft undirstrikað að þetta er eini vegurinn til okkar og frá,“ segir Eyrún Ingibjörg.

 

Tillaga Róberts og Marðar ásamt greinargerð

 

Sjá einnig:

28.03.2011  Verulegur hluti Reykhólahrepps þjóðgarður?

06.04.2011  Þjóðgarðstillagan: Boða þingmenn akandi vestur

 

Athugasemdir

Björn H. Hauksson, mivikudagur 30 nvember kl: 23:17

Dæmigert fyrir vinstrisinna þarna fyrir sunnan.

Þessir "vitringar" vilja í raun gera alla landsbyggðina að einum allsherjar þjóðgarði og verndarsvæði.

Tilgangurinn er náttúrulega sá að sjá til þess að aldrei verði neinar framkvæmdir á landsbyggðinni og gulltryggt verði að Höfuðborgarsvæðið verði hið eina háþroaða og hagvaxtarsvæði landsins.

Jón G. Snæland, fimmtudagur 01 desember kl: 00:13

Við hérna fyrir sunnan erum farinn að kannast við vinnubrögðin. Þ.e hin meintu samráð og fagleg vinnubrögð umhverfisofstækisfólksins. Ef landsbyggin fer ekki að spyrna við fótum. Þá lifi þið á fjallagrösum og sem sýningargripir fyrir erlenda ferðamenn.

Þórður Áskell Magnússon, fimmtudagur 01 desember kl: 04:30

Algerlega sammála. Ótrúlegur hroki sem landsbyggðinni er sýnd trekk ofaní æ. Ég hef það á tilfinningunni að við sem búum við Breiðafjörð eigum að verða eins og Indiánar á verndarsvæðum, til sýnis fyrir ferðamenn, ef við ekki spyrnum við fótum. Nefndin sem skilaði af sér vinnunni um vernd Breiðafjarðar undirstrikaði það svo ekki var hægt að vera í nokkrum vafa. Þar átti skipulagsvald að fara að fjórðu fimmta hluta frá heimamönnum til Rvk. Líkt og hér búi illa gefið fólk sem alla ekki geti séð fótum sínum forráð.

Það verður tröðla séð að höfuðborgarsvæðið sé til fyrirmyndar þegar kemur að skipulagsfræðum, eða verndunarmálum. Þar hafa einmitt íbúar við Breiðafjörð verið mjög framsýnir og áræðnir. Það er því fráleitt með öllu að ætla höfuðborgarbúum að fara með skipulagvaldið fyrir okkur ekkert frekar er Rvk þætti það sennilega ekki góð hugmynd að íbúar við Breiðafjörð færu með skipulagsvaldið fyrir höfuðborgina.

Eyvindur Magnússon, fimmtudagur 01 desember kl: 07:46

Þarna finnst mér háttvirtir þingmenn sýna mikinn stórhug og þykir mér voða vænt um að munað sé eftir okkur smælingunum sem ennþá hokra hér fyrir vestan. Þetta er náttúrulega síðustu forvöð að friða vegi og fleira svo að aðrir sjái hvernig þetta hefur verið síðan sautjánhunduðog súrkál. Legg til að allar nýbyggingar hér eftir verði í torfkofastíl og hætt verði að viðhalda vegum og bara öllu til að við verðum tilbúinn þegar draslið verður friðað. Kveðjur úr Reykhólahreppi hinum forna

Sig. Grímur Geirsson, fimmtudagur 01 desember kl: 15:22

Það er komin algjör "verðbólga" í þessa ofstækisfullu þjóðgarðs- og verndarsvæðamafíu.

Tilgangurinn með þessu er að taka stór og framkvæmdavæn svæði á landsbyggðinni í gíslingu til að koma í veg fyrir alla uppbyggingu og framþróun úti á landi.

Forræðishyggjan í þessu vinstrisinnaða umhverfisverndarpakki er alveg yfirgengilegur, frekjan, ofríkið og yfirvöðslusemin alveg óþolandi hja þessu 101 Reykjavík-pakki sem nær aldrei fer austur fyrir Elliðaárnar.

Ingi B Jónasson, fimmtudagur 01 desember kl: 18:04

samt er merkilegt að að þið kjósið þetta yfir ykkur aftur og aftur ,Vestfirðingar og breiðfirðingar sem ég hef haft mikla trú á virðast nú láta troða á sér trekk í trekk ,hvernig væri að stoppa nú stofna ný samtök og bjóða fram nýtt fólk .Margir af forvígismönnum þjóðarinnar voru frá Vestfjörðum ,sýnum nú dug og látum hrepparíginn gamla og rotna pólitík líða undir lok ,fram til sigurs fyrir Vestfirði !

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31