Tenglar

2. janúar 2013 |

„Þjóðvegur 60 – saga sigra og svikinna loforða“

Kristinn frá Gufudal messar yfir ráðherra á fundi í Bjarkalundi 2011.
Kristinn frá Gufudal messar yfir ráðherra á fundi í Bjarkalundi 2011.

Þegar vegur yfir Gilsfjörð var í undirbúningi heyrðust háværar raddir um að lífríkinu væri hætta búin. Örninn, rauðbrystingur og fleiri tegundir taldar í hættu. Háværastir voru menn úr Fuglaverndarfélagi Íslands. Rannsóknir og vöktun fyrir og eftir staðfestu að framkvæmdin hafði engin áhrif á þessar fuglategundir né heldur æðarvarpið í hólmunum. Tafðist það um þrjú ár að verkið hæfist.

 

Gilsfjarðarnefnd starfaði árin þegar verkið var í undirbúningi. Formaður hennar var Sigurbjörn Sveinsson læknir í Búðardal. Nefndin átti fundi með þingmönnum og mætti á nefndarfundi í Alþingi og var starf hennar ómetanlegt.

 

Þegar allt var á lokastigi stóð til að fresta verkinu um óákveðinn tíma. Gilsfjarðarnefnd boðaði til fundar í Dalabúð, sem fylltist af fólki búsettu beggja vegna fjarðar, ásamt þingmönnum, sem var rækilega lesinn pistillinn af Sigurbirni og fleirum. Árangurinn varð sá, að framkvæmdir hófust eins og ætlað var. Samstaða íbúanna beggja megin fjarðar réð úrslitum.

 

Ofanritað er glefsa úr ítarlegri samantekt Kristins Bergsveinssonar frá Gufudal um vegamál í Gufudalssveit fyrr og nú, deilur um vegstæði og tafir á framkvæmdum. Þarna víkur hann að þverun Gilsfjarðar á sínum tíma, deilum um áhrif þeirrar framkvæmdar á lífríkið og árangur þess að standa saman. Hér fyrir neðan er gripið niður í samantekt Kristins á nokkrum stöðum en í heild má lesa hana hér og undir Sjónarmið í valmyndinni til vinstri. Fyrirsögnin er: Þjóðvegur 60 – saga sigra og svikinna loforða. Kristinn skrifar:

 

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra ásamt heilum her vegagerðar- og sveitarstjórnarmanna fundaði mikið um vegamál í héraðinu sumarið 2011. Að loknum einum slíkum fundi fékk ég að hitta þá félaga dálitla stund. Afhenti ég þeim skriflega, rökstudda tillögu um veg í fjöruborði neðan við Teigsskóg. Ekki veit ég hvort þeir hafa hent tillögunni á leiðinni heim, en margir hafa tekið undir þessa lausn.

 

Ögmundur var yfirlýsingaglaður og vildi láta vita hver réði:

 

-  Enginn vegur yrði leyfður um Teigsskóg.
-  Vegur kæmi yfir hálsana.
-  Rista ætti niður Ódrjúgsháls og gera jarðgöng undir Hjallaháls. Nota ætti núverandi veg á Hjallahálsi a.m.k. næstu tíu árin. Þetta yrði það sem kalla mætti „vegur á tveimur hæðum“.

Fundahöld Ögmundar enduðu með því að stór hluti íbúa í Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppi var mættur á fund á Patró. Ráðherrann og félagar glöddust yfir góðri fundarsókn, en eftir yfirlýsingu heimamanna um að nóg væri búið að funda gengu þeir af fundinum og ráðherra sat eftir með sveinum sínum.

 

[- - -]

 

Vegleysur hafa mikil neikvæð áhrif á allan atvinnurekstur. Í ferðaþjónustu hafa Bjarkalundur og Flókalundur og fleiri fengið að kenna á því. Það litla sem eftir er af fiskvinnslu, laxeldi og verksmiðjurekstri á líf sitt undir Baldri, gömlum fljótapramma, sem gæti nú bilað eða orðið fyrir óhappi. Gæfa hefur verið með í ferðum Baldurs enda skipinu stjórnað af mönnum sem þekkja Breiðafjörðinn eins vel og hugsast getur.

 

Frá fyrsta fundi í Bjarkalundi árið 2003 hefur Vegagerðin unnið með hangandi hendi. Hún hefur ekki viljað skoða leið B1 ofan eða neðan skógar heldur haldið sig við veg í hlykkjum gegnum miðjan skóginn og staðsett stóra grjótnámu á miðju svæðinu. Nauðsynlegt er að Vegagerðin hafi meira samráð við landeigendur og heimamenn og hafi lipra samningamenn. Bændur á Skálanesi áttu erfitt með að fá Kristján Kristjánsson til að fara þá leið sem þeir vildu. Sú leið var þó farin og hefur lánast vel.

 

Það er furðulegt að Vegagerðin skuli leggja til þrjá verstu kostina. Við hverja þeirra leiða sem yrði farin væri kostnaðurinn nokkrum milljörðum meiri en ef farið yrði yfir firðina þrjá og um austanvert Hallsteinsnes, auk þess sem sú leið er langbest hvað öryggi varðar. Þar gæti varla talist farið vel með takmarkaða fjármuni.

 

[- - -]

 

Heimamenn fari nú að efla samstöðu sína og átta sig á því, að ekki eru margir raunverulegir kostir í boði varðandi veg á láglendi. Sveitarstjórn gæti gefið út yfirlýsingu um að ekki verði gefið út framkvæmdaleyfi nema fylgt sé núverandi aðalskipulagi og byrjað sé á að þvera Þorskafjörð.

 

Allar sveitarstjórnirnar krefjist þess af Alþingi, að framkvæmdir hefjist 2014 og fjármagn verði tryggt til að verkinu verði lokið 2018 eða 2019. Þingmenn endurskoði samgönguáætlun á næsta ári. Dugi það ekki sé ég eina ráðið að fólk af svæðinu fjölmenni í höfuðborgina með potta sína og pönnur og berji Ögmund og aðra ráðamenn til hlýðni. Samstaða er það eina sem dugar.

 

 

Þjóðvegur 60 - saga sigra og svikinna loforða

 

Athugasemdir

Einar Örn Thorlacius fyrrv.sveitarstjóri Reykhólahrepps, fimmtudagur 03 janar kl: 09:28

Kitti er seigur!

Gunnlaugur Pétursson, fimmtudagur 03 janar kl: 13:32

Ég er ansi hræddur um að Kristinn rugli mér saman við einhvern annan (eða einhverja aðra), þegar hann fullyrðir eftirfarandi: "Þegar vegur yfir Gilsfjörð var í undirbúningi heyrðust háværar raddir ... Háværastir voru menn úr Fuglaverndarfélagi Íslands með Gunnlaug Pétursson í fararbroddi."

Umsjónarmaður vefjarins, fimmtudagur 03 janar kl: 19:20

Að beiðni Kristins hafa orðin „með Gunnlaug Pétursson í fararbroddi“ verið felld brott.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31