Tenglar

24. júlí 2011 |

Þjónusta dýralækna á landsbyggðinni í uppnámi

Öllum héraðsdýralæknum landsins verður sagt upp 1. nóvember. Um er að ræða ellefu og hálfa stöðu héraðsdýralækna í dreifbýli en í staðinn koma stöður dýralækna sem eingöngu sinna eftirlitsþjónustu. Rúnar Gíslason héraðsdýralæknir á Snæfellsnesi sagði í Morgunblaðinu, að með breyttum lögum verði gott kerfi eyðilagt. Hann segir að enginn viti hvernig ríkisvaldið ætli að tryggja dýralæknisþjónustu í hinum dreifðu byggðum og er ósáttur við það. Hann segir ennfremur að nýtt kerfi verði mun dýrara þar sem fámennið sé mikið og vegalengdir langar.

 

Undir þetta tekur Sigríður Inga Sigurjónsdóttir héraðsdýralæknir Vestfjarðaumdæmis í samtali við Bæjarins besta á Ísafirði. Verst sé óvissan sem ríkir um komandi kerfi. „Það átti að setja fram nýjar hugmyndir um kerfið í júlí í fyrra en ekkert bólar á þeim. Eins og er hefur ekkert verið ákveðið endanlega með það kerfi sem tekur við og því ríkir ennþá óvissa um hvernig dýralæknaþjónustu verður háttað. Það er óskiljanlegt af hverju þetta hefur tekið svona langan tíma,“ segir Sigríður Inga.

 

„Það virðist vera uppi það sjónarmið að eftirlit og dýralæknaþjónusta fari ekki saman. Það getur vel verið að það gangi upp á höfuðborgarsvæðinu en það gerir það ekki hér og ég held að það ríki visst skilningsleysi á aðstæðum landsbyggðarinnar. Aðstæður eru auðvitað allt aðrar hér heldur en í Reykjavík þar sem dýralæknar geta haft stofurnar sínar opnar frá átta til fjögur og skipt svo milli sín bakvöktum. Það þarf auðvitað að sinna þessari þjónustu allan sólarhringinn eins og annarri læknisþjónustu. Hér er ég eini dýralæknirinn og hef verið það síðustu tólf árin eða síðan ég kom hingað. Því er ég alltaf á bakvakt.“

 

Ennfremur telur Sigríður ekki líklegt að nýir dýralæknir vilji vinna við þær aðstæður sem nú á að bjóða dýralæknum á landsbyggðinni. „Hver vill vera á vakt allan sólarhringinn og fá ekkert greitt fyrir það? Ég yrði mjög glöð ef hingað kæmi annar dýralæknir sem gæti tekið með mér bakvaktir, hins vegar hefur það ekki verið svoleiðis hingað til og ég efast um að það breytist,“ segir Sigríður Inga, sem er ekki bjartsýn á að hætt verði við komandi breytingar. „Ef það er einu sinni búið að ákveða að fara út í breytingar, þá verður þeim ekki svo auðveldlega aftur snúið, kerfið er búið eins og það er.“

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« September 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30