27. febrúar 2018 | Sveinn Ragnarsson
Þörf á viðhaldi verður til
Það er kunnara en frá þurfi að segja að viðhald vega hefur verið í lágmarki undanfarin ár, jafnframt því sem umferð hefur margfaldast.
Þessa dagana er að skapast þörf fyrir umtalsvert viðhald á veginum hér vestur Reykhólasveitina, þar sem slitlagið er að brotna upp. Á köflum er þetta varasamt fyrir minni bíla, því brot úr slitlaginu rúmlega hnefastór liggja á veginum.
Þarna er ekki beint um að kenna slælegu viðhaldi, heldur óvandaðri undirbyggingu vegarins, reitamunstrið sem sést á myndunum gefur það til kynna. Umhleypingar og verulega aukin þungaumferð kalla þetta fram.
Það á líka að geta þess sem vel er gert, sett var upp vegrið seint í haust á kaflann þar sem vegurinn frá Gilsfjarðarbrú kemur á land í Króksfjarðarnesi.