Þorpið í Flatey verndarsvæði í byggð
Það var í nógu að snúast hjá mennta- og menningarmálaráðherra, Lilju Alfreðsdóttur, á laugardag. Hún byrjaði heimsókn sína hér fyrir vestan á því að flytja erindi á Ólafsdalshátíðinni, að því loknu var haldið út í Stykkishólm og farið með Breiðafjarðarferjunni Baldri út í Flatey.
Erindið þangað var annars vegar að taka við Bókhlöðunni frá Reykhólahreppi og síðan að staðfesta það að Þorpið í Flatey er skilgreint sem verndarsvæði í byggð.
Fyrir hönd Reykhólahrepps tóku á móti ráðherra og gestum, þeir Ingimar Ingimarsson oddviti, Karl Kristjánsson og Tryggvi Harðarson sveitarstjóri.
Athöfnin í Bókhlöðunni hófst með því að Þorsteinn Bergsson framkvæmdastjóri Minjaverndar afhenti Tryggva Harðarsyni sveitarstjóra lykilinn að Bókhlöðunni, en Minjavernd stóð fyrir endurbyggingu hennar um og eftir 1980.
Þorsteinn rakti sögu Bókhlöðunnar og sagði frá endurbyggingunni. Lýsti hann m.a. hvernig tilviljanir urðu til þess að leifar af upprunalegu gluggunum fundust og hurðirnar einnig, en þær voru notaðar sem brunnlok og voru nógu heillegar til þess að hægt var að endurgera hurðirnar eftir þeim.
Að loknu erindi Þorsteins færði Tryggvi ráðherra áðurnefndan lykil. Í ávarpi sem Lilja hélt, kom fram að þó að þetta væri minnsta bókasafn á landinu þá skipti innihaldið meira máli en umgjörðin. Við stæðum í þakkarskuld við þá framsýnu menn sem stóðu fyrir stofnun lestrarfélaga um miðja þarsíðustu öld og veittu fólki aðgang að fróðleik og afþreyingu af bókum, og í dag væri gildi bókasafna ekkert minna.
Ráðherra afhenti síðan lykilinn þjóðminjaverði, Margréti Hallgrímsdóttur, sem staðfestingu þess að nú er Bókhlaðan formlega komin í umsjá Þjóðminjasafnsins.
Margrét gat þess að Bókhlaðan væri kærkomin viðbót við þau 38 hús sem safnið hefur á sinni könnu. Hún er annað húsið við Breiðafjörð í umsjá Þjóðminjasafns, hitt er Staðarkirkja á Reykjanesi. Af þessu tilefni bauð Þjóðminjasafnið til kaffisamsætis á Hótel Flatey.
Að lokinni athöfn í Bókhlöðunni var gengið til kirkju undir leiðsögn Gunnars Sveinssonar.
Dagskrá heimsóknar ráðherra lauk síðan með því að Lilja staðfesti með undirritun skjals að Þorpið í Flatey er verndarsvæði í byggð, en það þýðir að það ber að varðveita í sem upprunalegastri mynd.
Í tilefni af þessu færði Guðný Gerður Gunnarsdóttir minjavörður Reykjavíkur og nágrennis, Tryggva sveitarstjóra merki verndarsvæða.
Að endingu var slegið á léttari strengi og Jóhannes Kristjánsson, skemmtikrafturinn góðkunni var með uppistand. Sagði hann í upphafi, og vitnaði í gamlan stjórnmálaskörung, að áður en hann tæki til máls ætlaði hann að segja nokkur orð.