„Þorrakviss“ á Staðarfelli í Dölum
Svokölluð „kviss“ (e. quiz - spurningakeppni) virðast njóta vinsælda um þessar mundir. Fyrir skömmu var Þaulsetur sf. með „maltkviss“ í félagsheimilinu á Staðarhóli í Saurbæ og um síðustu helgi var efnt til spurningaleiks „í anda pub-quiz“ í Sævangi við Steingrímsfjörð. Núna á sunnudag, 27. janúar, verður áðurnefnt Þaulsetur sf. í Dalasýslu með „þorrakviss“ í félagsheimilinu á Staðarfelli á Fellsströnd (ath. - ekki á Staðarhóli að þessu sinni).
Þorrakvissið á Staðarfelli hefst kl. 15. Keppt verður í tveggja til þriggja manna liðum, hámark tveir eldri en 16 ára í liði, börn á grunnskólaaldri eitt til þrjú í liði en börn undir grunnskólaaldri án fjöldatakmarkana. Spurningar verða fjölbreyttar og að hluta til barnvænar. Verðlaun verða veitt í lok vetrar þeim sem flest stig fá úr þremur keppnum.
Þátttökugjald er 500 krónur en 16 ára og yngri borga ekkert. Verðlaun undir væntingum að vanda, segir í tilkynningu. Umf. Dögun verður með kaffisölu, 500 krónur fyrir manninn. Allur ágóði Þaulseturs og Umf. Dögunar rennur til endurbóta á félagsheimilinu á Staðarfelli. Allir eru velkomnir að taka þátt í ekki of alvarlegri keppni.
Frekari upplýsingar í síma 845 9952 (Valdís Einarsdóttir).