Þörungaverksmiðjan fyrirmyndarfyrirtæki
Viðskiptablaðið í samstarfi við Kelduna birti í gær lista yfir fyrirtæki á landinu sem fá einkunnina fyrirmyndarfyrirtæki á þessu ári. En 2,8% íslenskra fyrirtækja komast á listann.
Tuttugu vestfirsk fyrirtæki komast á listann. Níu þeirra eru á Ísafirði, fjögur í Bolungavík, tvö fyrirtæki á Drangsnesi og fimm fyrirtæki sem eru á eftirtöldum fimm stöðum, í Súðavík, á Suðureyri, Hólmavík, Patreksfirði og á Reykhólum.
Af þessu fyrirtækjum er eitt í opinberri eigu, Orkubú Vestfjarða.
Hin eru:
Oddi hf Patreksfirði, Þörungaverksmiðjan ehf á Reykhólum, Klofningur ehf Suðureyri, Aurora Seafood ehf Súðavík, Hlökk ehf Hólmavík, Fiskvinnslan Drangur ehf og ST 2 ehf á Drangsnesi, Jakob Valgeir ehf, Fiskmarkaður Vestfjarða ehf, Þotan ehf og Endurskoðun Vestfjarða ehf í Bolungavík og á Ísafirði: Laugi ehf, Snerpa ehf, Vélsmiðjan Þristur ehf, Bakarinn ehf, Kubbur ehf, Vestri ehf, Sjóferðir Hafsteins og Kiddýar, Rafskaut, 3X Technology hf.
Til þess að komast á lista Viðskiptablaðsins og Keldunnar yfir Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri þurfa fyrirtækin að uppfylla ströng skilyrði:
- Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri þurfa að hafa skilað ársreikningi fyrir rekstrarárin 2019 og 2018 en rekstrarárið 2017 er einnig notað til viðmiðunar.
- Fyrirtækin þurfa að hafa skilað jákvæðri afkomu á rekstrarárunum 2019 og 2018.
- Tekjur fyrirtækja þurfa að hafa verið umfram 30 milljónir króna á rekstrarárunum 2019 og 2018.
- Eignir fyrirtækja þurfa að hafa verið yfir 80 milljónir króna í lok áranna 2019 og 2018.
- Eiginfjárhlutfall fyrirtækja þarf að hafa verið yfir 20% í lok áranna, nema í tilviki bankanna.
Auk þessa er tekið tillit til annarra þátta, sem metnir eru af Viðskiptablaðinu og Keldunni.