Þriðji í Reykhóladögum
Dagskrá laugardagsins á byggðarhátíðinni Reykhóladögum 2014 byrjar með hinum hefðbundna þarabolta á sparkvellinum við Reykhólaskóla. Boðið er í súpu í hádeginu eins og venjulega. Eftir hádegið verður „skrúðganga“ forntraktora um Reykhólaþorp og síðan verða þeir til sýnis á túninu við Báta- og hlunnindasýninguna.
Dráttarvélafimin er á sínum stað, markaður verða í Bátakaffi og Sjávarsmiðjunni (þar eru líka hoppukastalar og dagskrá með fjárrekstri, rúningu og baggakasti) og grillpartí fyrir yngstu kynslóðina verður í Kvenfélagsgirðingunni (Hvanngarðabrekkunni).
Veisluskemmtunin í íþróttahúsinu hefst klukkan átta og síðan er dansleikur fram til þrjú í nótt.
Dagskrá Reykhóladaganna 2014 í heild er að finna í dálkinum hér hægra megin á síðunni og þar eru jafnframt nánari upplýsingar um hvern dagskrárlið.