Þrír áratugir síðan Sigurvin á Gilsfjarðarbrekku fórst
Í gær voru þrjátíu ár liðin frá slysinu hörmulega þegar Sigurvin Helgi Baldvinsson á Gilsfjarðarbrekku fórst í bílslysi í Gilsfirði. Hann var rétt liðlega þrítugur. Með honum í bílnum voru Hugrún Einarsdóttir eiginkona hans, 23 ára, og dætur þeirra tvær, Sigríður Magnea, fimm ára, og Ólafía, þriggja ára. Þær mæðgurnar köstuðust út úr bílnum á leiðinni niður snarbratta brekkuna en Sigurvin fór með honum alla leið niður í fjöru og mun hafa látist samstundis. Þessi atburður er enn í fersku minni fólksins í héraðinu þó að liðnir séu þrír áratugir.
Bæði Hugrún og Ólafía dóttir þeirra, sem búsett er á Reykhólum, minntust slyssins á Facebooksíðum sínum í gær. Þar birti Hugrún myndina af þeim hjónum ásamt dætrunum þeirra litlu, sem hér fylgir með góðfúslegu leyfi. „Það eru ekki margar góðar myndir til af Sigurvin mínum,“ segir Hugrún.
Á mynd nr. 2 er frétt sem birtist í DV þar sem greint er frá slysinu og því þrekvirki sem Hugrún vann. Hún ýmist gekk eða skreið móti illviðri og á glerhálku inn að Kleifum til að leita hjálpar, um fimm til sex kílómetra leið, en neyddist til að skilja litlu stúlkurnar eftir í bílflakinu, því að ekki var neitt annað skjól að fá. Smellið á myndina til að fá frásögnina í læsilega stærð.
Sjá einnig:
► 25.05.2013 Yngsti Reykhólabúinn og margvísleg ættatengsl
Hugrún Einarsdóttir, mnudagur 29 desember kl: 16:21
Mig langar til að nota tækifærið þar sem þetta er komið hérna inn til þess að þakka öllum þeim sem aðstoðuðu okkur mæðgur á þessum erfiða tíma fyrir 30 árum fyrir mig. Vil ég þar sérstaklega nefna heimilisfólkið á Kleifum sem tók á móti mér af alúð og hringdi eftir hjálp, þá Saurbæinga sem komu fyrstir á slysstað og komu stelpunum mínum í öruggt skjól, Hafliða og Ingibjörgu í Garpsdal sem börðust einnig fyrir fjörð í aftakaveðri og fylgdu mér svo í Búðardal, Fjölskyldum okkar Sigurvins beggja sem aðstoðuðu mig við allt sem þurfti að erinda næstu daga á eftir, Kvenfélagið í Geiradal sem sá um erfidrykkjuna, sem og aðrir nágrannar sem aðstoðuðu okkur og gerðu okkur kleift að búa á Gilsfjarðarbrekku áfram þar til ég var tilbúin til að fara að gera annað. Ég hef alltaf sagt að með fjölskyldu og nágranna eins og ég átti er áfallahjálp óþörf því hlýjan og stuðningurinn sem ég fann dag hvern er eitthvað sem ekki er hægt að læra í skóla og borga fyrir heldur kom beint frá hjartanu. Innilega takk fyrir allt... Hugrún