Tenglar

17. ágúst 2015 |

Þrír gírókoptar á Reykhólum

Myndirnar tala sínu máli / hþm.
Myndirnar tala sínu máli / hþm.
1 af 8

Reykhólabúar eru vissulega ekki óvanir heimsóknum flugvéla og flygilda af ýmsu tagi, sem taka bensín við búðina rétt við endann á flugbrautinni jafnframt því sem fólk fær sér eitthvað í svanginn (sjá t.d. hér biðröð að taka bensín). Í gær voru flugtækin sem lentu á Reykhólum frekar af sjaldséðara taginu, en þar var um að ræða þrjá gírókopta (gyrocopter, autogyro).

 

Þetta voru tveggja manna för (fyrir nettvaxið fólk) og mannskapurinn þýskt par, tveir Danir og Ástrali (eða hvort það var Austurríkismaður). Þau fóru beint inn á Báta- og hlunnindasýninguna og fengu sér ýmist kaffi eða kakó og súkkulaðiköku með bláberjum.

 

Þau höfðu lagt af stað um morguninn frá Ísafirði og stefndu á Stóra-Kropp í Borgarfirði seinni partinn. Síðan áttu þau fyrir höndum nokkurra daga ferð austur á land til móts við Norrænu (enda er tækjum þessum ekki flogið langa vegu yfir úthafið. Auðvelt að taka í sundur og ganga frá þannig að lítið fari fyrir og ekki er þyngslunum fyrir að fara). Fram til þessa höfðu þau mest haldið sig á annesjum norðanlands og á Vestfjörðum.

 

Við brottförina frá Hólabúð virtist sem hópurinn hefði eitthvað ruglast í ríminu. Í stað þess að fara beint út á flugbraut óku koptarnar hver á eftir öðrum sem leið lá upp að þjóðvegi og yfir ristarhliðið og beygðu til vinstri áleiðis út á Reykjanes. Þegar kom að endanum á bundna slitlaginu neðan við Grund klóruðu menn sér hins vegar í hausnum og sneru við.

 

Bandið í nefinu á koptanum á mynd nr. 3 gegndi því hlutverki að halda loftspöðunum föstum meðan verið var að athafna sig á jörðu niðri. Hins vegar er keyrt á spöðunum aftan á húsinu (egginu). Koptar þessir lenda ekki eða taka á loft eins og þyrilvængjur (þyrlur, helíkopterar) heldur þurfa þeir braut eins og aðrar flugvélar.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« September 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30