Tenglar

24. september 2014 | vefstjori@reykholar.is

Þrír hundar og þrjár manneskjur á morgungöngu

Talið frá vinstri: Sr. Elína, Hanna, Mist, Dimma, Gylfi og Ísabella, kölluð Bella.
Talið frá vinstri: Sr. Elína, Hanna, Mist, Dimma, Gylfi og Ísabella, kölluð Bella.

Hjónin Hanna og Gylfi ganga Reykhólahringinn svokallaða á hverjum morgni þegar veður leyfir og stundum endranær. Í morgun var sr. Elína Hrund í för með þeim, svo og þrír hundar og allir smáir. Löngum var hundurinn Toppur förunautur Hönnu og Gylfa en núna er ár liðið frá því að hann kvaddi. Þegar sást til hópsins í morgun var fyrsta hugsunin sú, að Gylfi væri búinn að endurnýja Topp, ef svo má segja, því að hann var með mjög svipaðan silkiterrier í taumi meðan sr. Elína hafði stjórn á hinum tveimur. Svo var þó ekki. Hundarnir þrír, sem allir eru tíkur, eru ýmist í eigu sr. Elínu eða á hennar vegum.

 

Þau Gylfi og Hanna eiga heima í Læknishúsinu gamla neðan við Hellishólana á Reykhólum. Þar standa hlið við hlið tvö af elstu húsunum í Reykhólaþorpi, Læknishúsið og svo Prestshúsið þar sem sr. Elína býr, bæði reist á árunum laust fyrir 1950. Mjög langt er síðan læknir hafði aðsetur á Reykhólum en húsið heldur sínu nafni eins og vera ber þó að það sé skráð sem Hellisbraut 2.

 

Tíkin sem Gylfi var með í taumi í morgun heitir Mist. „Hún er með sama yfirbragði og Toppur sálugi, en langt frá því að vera eins galvösk og montin og hann var,“ segir Gylfi.

 

Ein tíkin er kínverskur faxhundur, Dimma að nafni, mjög snoðin á hörund. Þess vegna var hún í skjólfatnaði á morgungöngunni enda hraustlegur haustlegur blástur. Sú þriðja heitir Ísabella, alltaf kölluð Bella. Hún er af tegundinni chihuahua sem ber heiti eins af sambandsríkjunum í Mexíkó. Bella er í eigu dóttur sr. Elínu og kemur öðru hverju vestur til að vera hjá „ömmu sinni“ í nokkra daga.

 

Þegar búið var að taka myndina af mannskapnum (ef svo má að orði komast um þrjár manneskjur og þrjá hunda) var tekin hörð ganga heim á leið því að útlit var fyrir að núna færi hann að rigna. Það gekk eftir; litlu síðar var komin úrhellisdemba og allir hefðu verið eins og hundar af sundi dregnir.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30