Tenglar

18. ágúst 2011 |

Þukl í Sævangi og Þuklaraball á Hólmavík

Hrútaþukl í Sævangi í fyrra.
Hrútaþukl í Sævangi í fyrra.

Árleg stórhátíð á Sauðfjársetri í Sævangi við Steingrímsfjörð verður á laugardag og hefst kl. 14. Þá verður níunda Íslandsmeistaramótið í hrútadómum – venjulega kallað hrútaþukl. Þessi íþróttagrein hefur smám saman náð almennri hylli frá því að Sauðfjársetrið byrjaði að halda mótið árið 2003 og núna er svo komið að óhætt er að tala um heimsmeistaramót. Um kvöldið verður svo Þuklaraballið margfræga í Félagsheimilinu á Hólmavík, að þessu sinni með hinni goðsagnakenndu hljómsveit Upplyftingu.

 

Nóg verður um að vera í hrútaþuklinu á Sauðfjársetrinu. Ókeypis inn á safnið og sýninguna, líf og fjör fyrir utan setrið og skemmtiferðir í dráttarvélarvagni. Reyndir og óreyndir þuklarar hvaðanæva að eru boðnir innilega velkomnir á þessa miklu hátíð.

 

Gestir þurfa ekki að hafa áhyggjur af hungri. Í hádeginu verður að sjálfsögðu kjötsúpa á boðstólum, rosalegt kaffihlaðborð í Kaffi Kind í Sævangi meðan á keppninni stendur og um kvöldið verður hægt að kíkja á veglegt matarhlaðborð á Café Riis á Hólmavík.

 

Hrútadómarnir sjálfir fara þannig fram, að Jón Viðar Jónmundsson, ráðunautur og æðsti sauðfjárspekúlant Íslands, fer fyrir dómnefnd sem metur fjóra íturvaxna hrúta með nútíma tækjum og tólum og raðar þeim í gæðaröð fyrirfram. Keppendur (í tveimur flokkum, óvanir og vanir) reyna sig síðan við mat á hrútunum með hendur og hyggjuvit að vopni og reyna að komast að sömu niðurstöðu og dómararnir. Þeir óvönu láta duga að raða hrútunum í sæti frá eitt til fjögur og færa rök fyrir máli sínu. Þeir vönu fara hins vegar eftir stigakerfi sem bændur gjörþekkja.

 

Afar veglegir vinningar eru í boði fyrir sigurvegara í báðum flokkum. Þannig hafa þrír efstu í vana flokknum undanfarin ár fengið m.a. nokkra skammta af hrútasæði frá Sauðfjársæðingastöð Vesturlands.

 

Þess má geta, að ekki eru nema rétt um 30 km frá vegamótum í Geiradal í Reykhólahreppi um Arnkötludalsveg til Hólmavíkur og innan við 20 km yfir í Sævang.

 

Nánari upplýsingar:

Matthías Lýðsson, sitjandi forseti Sauðfjársetursins, sími 845 8393.

Arnar S. Jónsson, fráfarandi yfirþuklari, sími 661 2009.

Netfang saudfjarsetur@strandir.is.

 

Sauðfjársetur á Ströndum

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31