Tenglar

25. júlí 2008 |

Þýskar heimildamyndir um dúnbúskap og Vestfirðinga

Fariba, Claudia, Eiríkur á Stað og Gabi.
Fariba, Claudia, Eiríkur á Stað og Gabi.
1 af 2

Tvær þrautreyndar þýskar fréttakonur, Claudia Dejá og Gabi Haas, tókust í sumar á hendur mánaðarferð um Vestfjarðakjálkann ásamt myndatökukonunni Fariba Nilchian og tóku upp efni í tvær þriggja kortera heimildamyndir fyrir þýsku sjónvarpsstöðvarnar ARTE og ARD. Önnur myndin verður um æðardúninn og nýtingu hans, hin um Vestfjarðakjálkann og fólkið sem þar býr.

Eins og nærri má geta kom hópurinn víða við í Reykhólahreppi. Farið var út í Skáleyjar með Birni Samúelssyni hjá Eyjasiglingu og komið í dúnhúsið þar sem Eysteinn Gíslason sýndi handtökin við dúnhreinsun á fyrri tíð og jafnframt hvernig að henni er staðið í dag. Farið var í dúnleit í landi Höllustaða og á Stað á Reykjanesi og komið til Jóns Sveinssonar dúnbónda á Miðhúsum. Líka voru dúnbændur á Mýrum og Læk í Dýrafirði heimsóttir.

 

Ætlunin er að vinnslu myndanna ljúki á þessu ári. Undirbúningur að Vestfjarðaferðinni og skipulagning hennar stóð í tæpt ár. Aðstoðarmaður í ferðinni var hinn reyndi leiðsögumaður Erlingur Hjálmarsson - armur þræll þriggja kvenna, leiðsögumaður og bílstjóri - og fékk borgað fyrir það, eins og hann komst að orði. Þetta var æðislega gaman, segir hann.

 

Fæstir vita neitt um uppruna þessarar dularfullu munaðarvöru, segir Claudia um æðardúninn. Framleiðsla hans er einstök í heiminum. Þetta eru villtir fuglar sem ekki þarf að slátra til að fá afurðina og þannig er þetta samvinna manna og fugla. Fjórir fimmtu af æðardún í heiminum koma frá Íslandi og dúntekjan er algerlega sjálfbær. Þetta fannst okkur merkilegt og við vitum ekki til þess áður hafi verið gerð mynd um nýtingu dúns.

 

Æðardúninn er ákaflega sérstæð gæðavara, segir Gabi, og þess vegna vildum við komast að öllu varðandi hann sem við gátum. Myndin er um allan ferilinn frá því að fuglarnir byrja að hreiðra sig og þangað til dúnninn er kominn í verksmiðju og síðan í sæng eða úlpu.

 

Skemmst er frá því að segja, að þýsku gestirnir heilluðust af því sem fyrir augu og eyru bar vestra í þessari ferð, hvort heldur var landslagið og náttúran yfirleitt eða fólkið. Ákveðið var að stefna að því að koma aftur í þennan landshluta og gera eina heimildamyndina enn og þá um matarmenninguna á svæðinu.

 

Konur þessar eru engir nýgræðingar í gerð heimildamynda. Áður hafa þær ferðast meðal annars til Kasmírhéraðs á mörkum Indlands og Pakistans þar sem þær gerðu mynd um framleiðslu á kasmírull.

 

Myndirnar sem hér fylgja eru teknar við höfnina á Stað á Reykjanesi, þaðan sem siglt var út í Breiðafjarðareyjar með Eyjasiglingu.


Viðtal við Claudiu og Gabi birtist í vikublaðinu Bæjarins besta á Ísafirði í síðustu viku. Við það er stuðst hér að hluta.
  

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31