Tíðinda að vænta frá Strákatanga
„Opinn dagur" verður á Strákatanga í Hveravík við Steingrímsfjörð á Ströndum milli kl. 13 og 16 á laugardag. Þar gefst gestum tækifæri að fræðast um fornleifarannsóknina sem hefur staðið þar yfir undanfarin ár, en í ljós koma stöðugt fleiri minjar sem tengjast erlendum hvalveiðimönnum við Steingrímsfjörð á 17. öld. Á fréttavefnum strandir.is segir, að á laugardaginn verði greint frá merkilegum fundi í grennd við meginrústirnar, sem geri rannsóknirnar enn meira spennandi og tengi Strákatanga jafnvel enn aftar í tíma.
Að sögn Ragnars Edvardssonar fornleifafræðings er rannsóknin á Strákatanga afar mikilvæg í alþjóðlegu samhengi fornleifarannsókna og einstök í íslensku samhengi. Þar er að finna miklar minjar um starfsemi sem áður var ekki kunnugt um að hefði átt sér stað hér á landi. Það eru Strandagaldur ses. og Náttúrustofa Vestfjarða sem standa sameiginlega að fornleifarannsóknunum á Strákatanga.
Nánar hér á fréttavefnum strandir.is.