Tenglar

6. febrúar 2014 | vefstjori@reykholar.is

Tíðindalaust á vesturvígstöðvunum?

Eurofighter orustuþota / Wikipedia.
Eurofighter orustuþota / Wikipedia.

„Loftið hefur titrað af herþotugný hér við Breiðafjörðinn, þær þutu fram og til baka, veltandi sér og takandi snöggar beygjur, og voru sex hver á eftir annarri þegar þær geystust síðan norður fyrir og yfir í Ísafjarðardjúp,“ segir Ása Björg Stefánsdóttir í Árbæ á Reykjanesi, sem er eitt dúnbýlanna í Reykhólasveit. „Hver tilgangurinn er að vera hér á þessu mikla æðarfuglasvæði er ofar skilningi okkar sem hér búum,“ segir hún. Núna dögum saman hafa fuglar og fólk við innanverðan Breiðafjörð þurft að sæta þessu rétt eina ferðina enn.

 

Svo virðist sem erlendum flugherjum þyki gott að fá að nota friðlandið í Breiðafirði og innfjörðum hans sem æfingasvæði fyrir hljóðfráar herþotur sínar enda leyfist ekki að vera hvar sem er við slíkar æfingar. Spurt hefur verið hvers vegna ekki sé nóg að æfa sig að sprengja hljóðmúrinn úti yfir hafinu og þá jafnvel í nokkurri hæð frekar en að gera það í lágflugi yfir helstu varpsvæðum og fuglaparadísum Íslands, en við því hafa ekki fengist svör. Ekki heldur spurningunni fyrir hvaða innrásarherjum eigi að vernda fólk og fugla í Reykhólahreppi.

 

Á fréttavefnum bb.is birtist í gær frétt með yfirskriftinni Frelsisdrunur á Ísafirði. Þar segir m.a.: „Þær hafa varla farið fram hjá neinum drunurnar sem heyrðust yfir Ísafirði í morgun og í gær. Svo öflugar voru drunurnar að rúður titruðu, m.a. á ritstjórnarskrifstofu BB.“

 

Jafnframt var frá því greint í gær, að töluverðar sveiflur hafi sést á jarðskjálftamælum og tilkynningar borist um jarðskjálfta og höggbylgjur. Engin jarðskjálftavirkni hafi hins vegar mælst, þetta megi rekja til þess að þoturnar hafi brotið hljóðmúrinn með þeim afleiðingum að höggbylgjur myndast.

 

Nærfellt heyrnarlaus maður á Dvalarheimilinu Barmahlíð á Reykhólum hélt að hann væri búinn að endurheimta heyrnina eins og fyrir kraftaverk þegar hann hrökk upp af miðdegisblundinum við einhver læti. En þetta voru þá bara herþoturnar að æfa sig og heyrnin engu skárri en verið hefur.

 

Athygli vakti á sínum tíma þegar Einar Örn Thorlacius fyrrverandi sveitarstjóri Reykhólahrepps og þáverandi sveitarstjóri Hvalfjarðarsveitar, kom harðorðum mótmælum á framfæri við stjórnvöld vegna svona háttalags.

 

Komið hefur fyrir að æfingatími hinna útlendu hersveita við innanverðan Breiðafjörð hefur verið valinn akkúrat þegar varp stóð sem hæst. Svo virtist sem æðarfuglinn og örninn og aðrar tegundir fugla væru látnar „leika“ óvininn. Þoturnar þræddu helstu varpsvæðin í lágflugi og fóru inn í litlu firðina í Reykhólahreppi svo að enginn slyppi nú við þetta. Enda segir Ása í Árbæ:

 

„Þetta er sannarlega ekki í fyrsta skipti sem þetta svæði er valið til æfinga fyrir þotureið. Þeir hafa verið að krusa þetta á varptíma æðarfuglsins og flogið lágflug með ströndinni með tilheyrandi drunum og titringi, sem er auðvitað ólíðandi.“

 

Lög um vernd Breiðafjarðar voru sett árið 1995. Þau taka til allra eyja, hólma og skerja á Breiðafirði ásamt fjörum í innri hluta fjarðarins. Umhverfisráðherra fer með stjórn mála sem varða vernd Breiðafjarðar. Þetta svæði er á norrænum lista yfir strandsvæði á Norðurlöndum sem mikilvægt er talið að vernda og á evrópskum lista yfir sjávarsvæði þar sem hentugt og æskilegt er talið að stunda rannsóknir á líffræðilegum fjölbreytileika. Innan þessa verndarsvæðis eru allar eyjar og strendur og allir innfirðirnir í Reykhólahreppi, allt frá Geiradalshreppnum gamla sem byrjar í Gilsfirði og vestur í Múlasveit.

 

Óheimilt er lögum samkvæmt að koma nærri arnarsetrum eða trufla örninn á nokkurn hátt. Þó gera stjórnvöld undantekningu frá lögunum, hvernig sem þeim leyfist slíkt: Útlendar herþotur fá góðfúslega að fljúga í lágflugi yfir heimkynnum og varpstöðvum arnarins við Breiðafjörð með tilheyrandi djöfulgangi og hljóðmúrssprengingum.

 

Stærstur hluti íslenska arnarstofnsins á sín búsvæði við Breiðafjörð. Stofninn er í hægum vexti eftir að hafa nánast dáið út um 1960. Örninn er mjög viðkvæmur í varpi og því er óheimilt að fara nær arnarhreiðri en í hálfs kílómetra fjarlægð nema um sé að ræða landeiganda við hefðbundna nýtingu lands. Eða útlendar orustuþotur.

 

- Hlynur Þór Magnússon, umsjónarmaður Reykhólavefjarins.

 

Athugasemdir

Eirikur Hjartarson, fimmtudagur 06 febrar kl: 19:53

Við, allavegana sum okkar, vildum gjarnan koma okkar kvörtunum á franfæri, það er í Keflavik sem setið er uppi með þennan vágest/óhróður.
Það er ekki okkur, hinum almenna íbúa að kenna, heldur í upphafi, frú Ingibjörgu Sólrúnu, sem af ókunnri snilld fann það út að hinum íslenska borgara væri fært ímyndað´öryggy méö þessary vitleysu, og þyrfrtu þar að auki að greiða væna upphæð fyrir, þvílík blessun.
Ég varð að vísu fyrir vonbrygðum í morgun, svaf til kl 1100, vorum við virkilega óvarin!!!
Hvílík blessun!!!
Hlakka til viðbragða og konuna mina líka!!!!!!

Við bíðum!!!
Eirikur Hjartarson/Sigrún Guðmundsdóttir.
Keflavík

Ólafur Garðarsson, fimmtudagur 06 febrar kl: 20:36

Er eitthvað kraftaverk í gangi...?
Örninn sestur upp í byrjum febrúar

Jónas Ragnarsson, fimmtudagur 06 febrar kl: 22:34

Nú reynir á alþingismenn Vestfirðinga að taka málið upp þegar hefðbundin þingstörf hefjast á ný eftir helgina.

Friðrik A.Brekkan, laugardagur 08 febrar kl: 12:31

Algerlega sammála. Fyrir um áratug voru USA flugmenn frá Keflavík að "leika sér" í að strjúka Látrarbjarg til þess að sjá fuglinn þjóta úr bjarginu í massavís af hræðslu. Ljótur leikur og var fuglin lengi að koma sér heim aftur.Þetta er allt saman tómur leikaraskapur á kostnað fugla og íbúa þessa lands.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Febrar 2024 »
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29