Til athugunar fyrir íbúa Reykhólahrepps
Auglýsing
Íbúar Reykhólahrepps eru beðnir um að senda úr tölvum sínum á veffang Alþingis sem er www.althingi.is áskorun til formanns samgöngunefndar Alþingis um vegamál.
Áskorunin hljóði svona:
„Við íbúar í Reykhólahreppi og sumarhúsaeigendur skorum á Alþingi og ríkisstjórn að semja strax lög sem heimili Vegagerðinni að bjóða út og hefja framkvæmdir eftir Þ.H. leið á Þjóðveg 60 – frá Kinnarstöðum að Kraká.“
Tölvupósturinn sendist úr tölvum ykkar, auðkenni Þ.H. leið og undir séu allar kennitölur íbúa á heimilinu sem eru fylgjandi áskoruninni, börn séu líka með því þeirra er framtíðin. Nöfn eiga ekki að þurfa með, eingöngu „kennitölur“.
Oddviti fullyrti nýlega að meirihluti íbúa Reykhóla vildi fara leið R. Þessi könnun myndi leiða í ljós hið sanna. R leiðin á eftir að fara í umhverfismat; og einnig á þá eftir að breyta aðalskipulagi sem samið var þann 8. mars sl. á fundi þáverandi sveitarstjórnar.
Velunnarar Þ.H. leiðar
Karl Kristjánsson, fimmtudagur 11 oktber kl: 09:29
Hverjir eru „velunnarar Þ-H leiðar“ viljið þið ekki koma fram undir nafni? Getum við ekki sameinast um að lyfta umræðunni á örlítið hærra plan. Ekkert er að því að efnt sé til undirskrifta og skorað á stjórnvöld en í þessum stutta texta eru þrjár fullyrðingar og allar rangar. Það er ekki rétt að oddviti hafi fullyrt að meirihluti íbúa Reykhóla vildi fara R leið. Það er röng fullyrðing að R- leiðin eigi eftir að fara í umhverfismat, verði ákveðið að fara þá leið er hún tilkynningarskyld til Skipulagsstofnunar og hún metur hvort þörf sé á nýju umhverfismati, eftir viðræður við Skipulagsstofnun eru eru taldar minni líkur en meiri á að R-leiðin þurfi í nýtt umhverfismat. Aðalskipulagsbreyting er ekki samin á einum fundi sveitarstjórnar. Breyting á aðalskipulagi Reykhólahrepps er í ferli, á fundinum 8. mars s.l ákvað þáverandi sveitarstjórn að fara Þ-H leið, þeirri ákvörðun var slegið á frest meðan óháð verkfræðistofa (Multiconsult) fór yfir þá kosti um leiðir sem Vegagerðin lagði til grundvallar þeirri ákvörðun. Nú er beðið skýrslu Vegagerðarinnar um R-leiðina og hún væntanleg á næstu dögum. Það er ábyrgðarhluti að skora á Alþingi að svipta heimamenn skipulagsvaldinu og ég vil biðja alla að hugsa sig vel um áður en það er gert, í það minnsta að byggja sína áskorun á réttum upplýsingum.