Tenglar

11. febrúar 2016 |

„Tilfinnanleg“ fækkun í refastofninum

Indriði á Skjaldfönn.
Indriði á Skjaldfönn.

Fram er komið á Alþingi þingskjal 303, tillaga til þingsályktunar um eflingu rannsókna á vistfræði melrakkans. Flutningsmaður Róbert Marshall. Þó að „efling rannsókna“ sé yfirskin segir greinargerðin allt annað, sem er í stuttu máli þetta:

 

1) Refir valda svo litlu tjóni að það réttlæti ekki fjárframlag hins opinbera til að halda stofninum niðri.

2) Orðið hefur „tilfinnanleg“ fækkun í stofninum á undanförnum árum.

3) Því ber að hætta öllum opinberum stuðningi við (refa)veiðar, forðast að trúa á „getgátur og sögusagnir“ um tjón af völdum refa, en veita rausnarlegt fé til verndaráætlunar fyrir tegundina og vistfræðirannsókna í hennar þágu.

 

Þannig hefst grein eftir Indriða Aðalsteinsson á Skjaldfönn við Djúp, sem birtist í Morgunblaðinu í dag, undir fyrirsögninni Refurinn fær Marshall-aðstoð. Í samráði við höfundinn birtast skrif hans einnig hér. Indriði heldur áfram:

 

Stórtjón og kostnaðarauki

 

Frá landnámsöld hafa forfeður okkar barist við refinn og fór ekki að miða í því stríði fyrr en skotvopn og síðar eitur komu til sögunnar.

 

En Hálsaskógarheilkennið um að Mikki refur sé krúttlegur og meinlaus hefur nú rótfest sig svo í kollinum á stórum hluta veruleikafirrts þéttbýlisfólks, að reynsla kynslóðanna verður að „getgátum og sögusögnum“ í þess eyrum. Því skal hér vitnað í nútímastaðreyndir.

 

Engir eiga um jafnt sárt að binda í þessu efni og við Vestfirðingar, því úr hinni ríkisreknu vargaútungarstöð á Hornströndum má ætla að um 10.000 refir hafi síðan 1994 herjað á okkur á leið sinni austur um Húnaþing og Skagafjörð og suður til Dala, Borgarfjarðar og Snæfellsness.

 

Samkvæmt rannsóknum Páls Hersteinssonar prófessors er þéttleiki grenja hvergi meiri á landinu en á Hornströndum. Sem dæmi um refavöðuna er að árið 2013 á svæðinu frá Hrútafjarðarbotni norður Strandir að Reykjarfirði nyrðri og að Djúpi milli Mórillu í Kaldalóni og Ísafjarðarár voru felldir rúmlega 500 greiðsluskyldir refir og þá eru til viðbótar verulegur hluti útburðar og ljósaskyttufelldra dýra og þau sem ekið er yfir.

 

Svo fáeinar staðreyndir séu nefndar um afleiðingar þessa refafárs er að rjúpa er nánast þurrkuð út hér vestra, svo og kríuvörp nema í eyjum. Æðarbændur verða á vorin að standa vopnaða vakt 5-6 vikur og dugir þó ekki alltaf til. Í Þernuvík við Djúp gróf refur sig undir vandaða og vel niðurnjörvaða girðingu þegar heimafólk brá sér af bæ og sundraði 40 hreiðrum.

 

Þá var refur einnig skotinn þar í fjörunni við að murka lífið úr selkóp. Tjón sauðfjárbænda er þá ótalið, t.d. hurfu hjá mér, á túnum nálægt bæ, þrjú 4-5 vikna gömul lömb og náðist sá skaðvaldur ekki þrátt fyrir vöktun öflugra veiðimanna og óvenju ítarlega grenjaleit.

 

Þetta eru þó smámunir, því hjá Rögnu á Laugabóli við Djúp vantaði 26 lömb af fjalli í haust eða um 12% og til viðbótar komu skaðbitnar ær.

 

Síðast en ekki síst er sú lífsgæðarýrnun sem felst í því hjá öllu sæmilegu fólki, að raddir vorsins hafa nú mjög dofnað eða þagnað með öllu.

 

Þær tegundir fugla sem verpa þar sem refurinn kemst að eggjum og ungum eru að þurrkast út. Refavinir ættu að lesa frásögn Ævars Petersens fuglafræðings í síðasta hefti Náttúrufræðingsins, þar sem hann greinir frá reynslu sinni af heimsóknum refa í himbrima- og lómabyggð vestur á Mýrum. Þar mun enginn ungi hafa komist upp í sumar.

 

 

Grein Indriða fylgir vísukorn að venju:

 

   Hjá þingmanni vargur í öndvegi er,

   þó arðsemi neikvæða gefi.

   Til skyldleika finnur með sjálfum sér

   og soltnum og blóðþyrstum refi.

 

_________________________________

 

Sjá einnig:

Verulegur hluti Reykhólahrepps þjóðgarður?

 

Athugasemdir

Bergsveinn Olafsson, fstudagur 12 febrar kl: 20:46

veruleikafirrtan veruleika þéttbýlisfólks er stundum alveg ómögulegt að skilja.

Hér í Oslo er úlfurinn farinn að fjölga sér, enda friðaður með öllu í Noregi, bændum til gremju. Bændur eru hinsvegar í miklum minnihluta í samfélaginu og bæjarbúar ekki beinlínis áhugasamir í veruleika bænda firra sig inn í rómantík sem ekki heldur vatni.
Nú síðustu árin hefur sést til vargsins á heilsugöngumleiðum borgarbúa og hundeigendur tapað hundi sínum í kjaft vargsins, Jeg er hræddur um að það þurfi stóra ógæfu til að affirra borgarbúa.

Kveðja

Bergsveinn

Bergsveinn Olafsson, fstudagur 12 febrar kl: 20:53

PS Það er of seint að skjóta úlfinn þegar hann er búinn að éta allar piparkökur bakarans...

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Oktber 2024 »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31