Tilraunaboranir eftir heitu vatni hafnar við Þorskafjörð
Síðdegis í dag var byrjað að bora fyrstu tilraunaholuna í leit að heitu vatni við Þorskafjörð. Eins og hér var greint frá ákvað Orkuráð nú fyrr í sumar að leggja fram fimm milljónir króna til jarðhitaleitar í landi Hofsstaða. Einnig kom fram, að jafnvel yrði leitað beggja vegna Hofsstaðalands, þ.e. bæði í landi eyðijarðarinnar Hlíðar og í landi Kinnarstaða. Niðurstaðan varð sú, að hefja leitina við Skiphöfða í landi Hlíðar, rétt innan við Hlíðarána.
Jósteinn Guðmundsson ehf. annast verkið en Kristján Sæmundsson jarðfræðingur stjórnar leitinni. Borað verður niður á fimmtíu metra dýpi og niðurstaðan sem fæst úr fyrstu holunni ræður framhaldinu. „Það er engin leið að segja hver framvindan verður", segir Arnór H. Ragnarsson á Hofsstöðum.
Ef leitin ber þann árangur sem vonast er til munu Hofsstaðir, Kinnarstaðir og Hótel Bjarkalundur njóta góðs af heita vatninu. Ekki síst myndi hitaveita létta rekstur Bjarkalundar verulega. Meðal þeirra sem fylgdust með þegar byrjað var að bora fyrstu holuna var Árni Sigurpálsson, hótelstjóri í Bjarkalundi. Myndirnar tók Björn Samúelsson.