Tenglar

3. september 2016 | Umsjón

Tíu bekkir úr Síberíulerki frá Vinafélagi Barmahlíðar

Minnismerki Jóns Thoroddsens frá Reykhólum og tveir bekkir hjá (og einn til viðbótar álengdar hægra megin).
Minnismerki Jóns Thoroddsens frá Reykhólum og tveir bekkir hjá (og einn til viðbótar álengdar hægra megin).
1 af 4

Eins og hér hefur verið greint frá í máli og myndum (sjá tengla neðst) hafa staðið yfir miklar framkvæmdir í norðurhluta Reykhólaþorps í sumar, eða á stóru svæði kringum Hjúkrunar- og dvalarheimilið Barmahlíð, allt frá skólanum þar sem búið er að vinna jarðvinnu fyrir knattspyrnuvöll í fullri stærð og upp að gatnamótunum við Hólabúð. Gert hefur verið svolítið torg í krikanum við gatnamótin og komið þar fyrir minnismerkinu um Jón Thoroddsen, sem í áratug var milli Barmahlíðar og kirkjugarðsins. Jafnframt hafa miklir göngustígar verið steyptir. Framkvæmdum þessum er vissulega hvergi lokið og lýkur ekki á þessu ári.

 

Núna hefur Vinafélag Barmahlíðar komið færandi hendi til heimilisins með höfðinglega gjöf, tíu bekki til að tylla sér á. Ekki aðeins gera bekkirnir heimilisfólki í Barmahlíð auðveldara að fara í göngutúra sér til heilsubótar og ánægju, heldur nýtast þeir öðrum líka, bæði Reykhólabúum á öllum aldri og ferðafólki. Nokkrir af bekkjunum tíu eru við Barmahlíð en aðrir á ýmsum stöðum við gönguleiðirnar.

 

Bekkina smíðaði hagleiksmaðurinn á tré og járn Sveinn Ragnarsson á Svarfhóli. Viðurinn í þeim er Síberíulerki sem á ekki að fúna þó að ekki sé borið á það, en gránar og dökknar þegar það veðrast. Sveinn kveðst kannski geta eignað sér hönnunina á bekkjunum. „Það er að segja, ég stal ekki neinni einni fyrirmynd, heldur er þetta samansafn af mörgum.“

 

Helga Garðarsdóttir hjúkrunarforstjóri í Barmahlíð vill færa Vinafélaginu kærar þakkir fyrir þessa höfðinglegu gjöf.

 

Formaður Vinafélags Barmahlíðar er Svanhildur Sigurðardóttir á Reykhólum (Mávatúni), ritari Guðlaug Jónsdóttir í Árbæ og gjaldkeri Málfríður Vilbergsdóttir á Hríshóli.

 

Vinafélagið er mjög þakklátt öllum þeim sem hafa stutt félagið, nú síðast Kvennadeild Barðstrendingafélagsins, fjölskyldunni frá Kambi í minningu Unnar Halldórsdóttur og fjölskyldu Eysteins Gíslasonar úr Skáleyjum, svo og öllum þeim sem eru í félaginu og greiða félagsgjöld.

 

„Án þessara aðila gætum við ekki gert það sem við höfum verið að gera,“ segir Málfríður gjaldkeri. „Þessir bekkir eru stærsta gjöfin frá okkur, en meðal annars sem við höfum verið að gera er að bjóða í kaffi í Bjarkalundi, fara á þorrablót í Silfurtúni í Búðardal, fara í ferð með Félagi eldri borgara og margt fleira. Félagið er lítið og starfar ekki mikið, en við reynum hvað við getum. Þess vegna bjóðum við öllum þeim sem vilja styðja við bakið á okkur, til dæmis með heimsóknum, söng eða annarri afþreyingu, að hafa samband við okkur.“

 

Haldiði að það sé munur? (22. júlí 2016).

 

Umsvif í umhverfismálum á Reykhólum (22. júní 2016).

 

Róttækar breytingar á umhverfi Barmahlíðar (23. maí 2016).

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Aprl 2024 »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30