Tenglar

19. janúar 2012 |

Tófur og mús: Vangaveltur um „sögur í snjónum“

Ein mynda Sveins á Svarfhóli af melrakkatraðkinu torræða.
Ein mynda Sveins á Svarfhóli af melrakkatraðkinu torræða.

„Þar sem sporin skiptast í tvennt sést að „göngulagið“ er ólíkt, sem gæti bent til að hér séu tvö misstór dýr á ferð en einnig gæti verið að um eitt dýr sé að ræða sem gengur fram og til baka og þá á ólíkum hraða. Ég hef heyrt frásagnir af tófusporum sem „hætta“ líkt og dýrið hafi lyft sér upp til flugs en ekki áður séð spor sem kvíslast í tvennt eða verða að einu. Þetta er áhugavert en skýringin gæti allt eins verið einföld.“

 

Þetta meðal annars segir Ester Rut Unnsteinsdóttir líffræðingur, forstöðumaður Melrakkaseturs Íslands í Súðavík, í skemmtilegu og ítarlegu tilskrifi undir frétt sem birtist hér á vefnum í ársbyrjun og hún rakst á núna í dag. Þar eru birtar nokkrar myndir sem Sveinn á Svarfhóli tók af tófusporum í snjónum og ein með músarsporum.

 

„Ég er ekki nógu vel að mér um atferli refa til að vita hvort þarna hefur verið bardagi eða leikur. Svo hafði líka mús verið þarna á stökki“, sagði Sveinn.

 

Einnig segir Ester í tilskrifi sínu:

 

„Músarsporin eru alltaf skemmtileg en þau virðast liggja annars staðar en hin sporin og maður veit ekki alveg hversu nálægt þau eru. Mýs þurfa að fara um á veturna til að ná sér í æti enda fátt um fæðugerðir sem hægt er að eiga í forðabúri yfir allan veturinn. Margar mýsnar lenda þá í refskjafti eða klóm ránfugla. Því getur verið skeinuhætt fyrir mýslu að vera að þvælast á sama svæði og tófan. Tímasetning er óljós því snjórinn getur legið lengi, kannski slapp sú litla í þetta skiptið.

 

Já, það er gaman að þessum vangaveltum en maður kemst oft lítið áleiðis inn í hugarheim lágfótu enda eru þær jafn ólíkar og þær eru margar. Ég hef aðgang að nokkrum mjög skemmtilegum myndskeiðum af tófum sem leika sér saman í snjó og kannast við að atgangur getur orðið þó nokkur, bæði í leik og af hörku. Mér sýnist á þessum myndum að leikurinn sé meiri en harkan í þessu tilfelli, hverjum þykir ekki gaman að leika sér í snjónum?“

 

Sjá hér fréttina og myndirnar og hugleiðingar Esterar í heild:

02.01.2012  Sögur í snjónum - bardagi eða leikur?

 

Melrakkasetur Íslands

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« September 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30