Tenglar

18. nóvember 2014 | vefstjori@reykholar.is

Tóku eina bröndótta í 5.364 metra hæð

1 af 2

Hópur fólks í fjallgönguklúbbnum Toppförum fór fyrir skemmstu til Himalajafjalla. Frá þessari ferð er greint í máli og myndum í nýjasta Sunnudagsmogganum, þar sem Orri Páll Ormarsson blaðamaður ræðir við nokkra af fjallagörpunum. Naumast væri sagt frá þessu hér á Reykhólavefnum nema vegna myndar af fólki með taflborð á milli sín í 5.364 metra hæð yfir sjávarmáli. Það eru þau Jóhanna Fríða Dalkvist frá Mýrartungu í Reykhólasveit og Arnar Þorsteinsson námsráðgjafi. Orri Páll ræðir við Arnar um tildrögin:

 

„Ég fékk hugmyndina þegar ég gekk á Mont Blanc fyrir tveimur árum og sendi félögum mínum í skák- og menningarfélaginu Mátum smá kveðju. Sá mikli meistari Jón Árni Jónsson lánaði mér ferðataflsett sem gefið var út í tilefni einvígis Fischers og Spasskís 1972 og var ég fyrst að hugsa um að rekast hugsanlega á Sherpa sem kynni að tefla. Tefldi raunar við leiðsögumanninn okkar á leiðinni upp. Þá kom upp úr dúrnum að í hópnum var nokkuð sterk skákkona, Jóhanna Fríða Dalkvist, sem vart hafði tekið í skák síðan á helgarmótinu í Flatey 1984 og þurfti sem sagt grunnbúðir Everest til að draga hana aftur að skákborðinu, 30 árum síðar!“

 

Arnar segir þau hafa þurft að tefla nokkuð hratt enda aðstæður ekki heppilegar til skákiðkunar, skítkalt og auk þess mikilvægt að komast aftur í gömlu grunnbúðirnar í Gorashep fyrir myrkur.

 

„Annar leiðsögumanna okkar, hinn annars dagfarsprúði Sam, gaf uppátækinu enda umsögnina: „You are crazy!“ Skákin sjálf var svo sem eins og hver önnur hraðskák en alveg ljóst að maður leggst ekki í mjög djúpar pælingar í slíkri hæð. Og úrslitin; svoleiðis hversdagslegt pjatt skiptir ekki máli í Himalajafjöllunum!“

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« September 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30