Tökur í Nesi fyrir auglýsingu um BMW Mini Cooper
Aðalhlutverkið (auk bílanna sjálfra) leikur Víkingur Kristjánsson. Meðal heimafólks komu við sögu Jón Friðriksson á Gróustöðum, Solla Magg á Reykhólum, félagarnir Gylfi Helgason og hundurinn Toppur (hér talinn til heimafólks alveg blákalt), Indiana Ólafsdóttir á Reykhólum, Adda Egilsdóttir á Mávavatni, Dalli á Reykhólum, Sumarliði Gilsfjörð Bjarkason á Gróustöðum og Óli í Þurranesi sem lék löggu.
Hafliði í Garpsdal og Hallgrímur á Brekku komu að moka snjó, Jón á Sauðhúsum í Laxárdal kom á saltbílnum hans Gunnbjarnar á Kinnarstöðum og Stefán á Gróustöðum aðstoðaði við að koma upp leikmynd. Beggi á Gróustöðum var allsherjarreddari til þess meðal annars að segja í hverja ætti að hringja út af hinu og þessu. Eflaust gleymast einhverjir í þessum upptalningum.
Ástæða þess að komið var til Íslands vegna þessa verkefnis var sú, að menn vildu mynda bílinn í snævi þöktu landi. Samt mátti snjórinn aðeins vera í kring. Af einhverjum ástæðum máttu bílarnir alls ekki sjást akandi í snjó.
Króksfjarðarnes varð fyrir valinu vegna þess að myndin á að hluta að gerast inni í vegasjoppu. Eins og a.m.k. heimafólk veit er verslunarrekstur löngu aflagður í Kaupfélagshúsinu gamla og þess vegna þurfti ekki að leggja undir sig fyrirtæki í rekstri dögum saman. Friðrik Elís Ásmundsson kvikmyndagerðarmaður er kunnugur sveitinni síðan hann starfaði við Heiðina, kvikmynd Einars Gunnlaugssonar, sem var tekin upp í Reykhólasveit vorið 2007. Að þessu sinni var Friðrik Elís tökustaðarstjóri.
Öllu var umsnúið í húsinu og gerð flott búð eins og sjá má á meðfylgjandi myndum sem Beggi allsherjarreddari Reynisson tók.
Já, það kostar klof að ríða röftum - jafnvel þótt útkoman sé aðeins 45 sekúndur.
Hinir ensku Morris Mini (stundum voru þeir kallaðir Austin Mini) eru fyrir löngu orðnir klassískir. Framleiðsla á fyrstu útgáfunni hófst árið 1959. Árið 1999 varð Mini í öðru sæti í vali á Bíl 20. aldarinnar, næst á eftir T-módelinu fræga hjá Ford. Ýmis eigendaskipti hafa átt sér stað og árið 1994 komst Rover Group, sem Mini tilheyrði þá, í eigu þýska bílaframleiðandans BMW. Þrátt fyrir margvíslegar útlitsbreytingar gegnum tíðina en þó einkum tæknibreytingar hefur áhersla alltaf verið lögð á það að halda anda og svipmóti hinnar fyrstu gerðar af Mini.