Tenglar

1. janúar 2014 | vefstjori@reykholar.is

Tölfræði við áramót og ýmsar hugleiðingar

Línurit yfir fjölda innlita í hverjum mánuði árið 2013 (Google Analytics).
Línurit yfir fjölda innlita í hverjum mánuði árið 2013 (Google Analytics).

Innlit (heimsóknir) á vef Reykhólahrepps á árinu 2013 voru 179.409 eða að meðaltali 492 á dag. Flettingar voru 637.065 eða að meðaltali 1.745 á dag. Þannig hefur innlitum fjölgað lítillega milli ára (úr 480 í 492 á dag eða um 2,5%). Flettingum hefur hins vegar fækkað lítillega (úr 1.801 í 1.745 eða um 3,1%) enda fækkaði fréttum milli ára úr 722 í 649 eða um 7,3%. Breytingar á innlitafjölda á nýliðnu ári vekja athygli.

 

Fyrstu fjóra mánuði ársins var meðalfjöldi innlita á dag 541 eða talsvert yfir meðaltali ársins á undan (480). Síðan fór að draga úr dugnaði umsjónarmanns og keyrði um þverbak þegar kom fram á haustið og veturinn. Þetta kom skiljanlega fram í aðsókninni; þannig voru innlitin í nóvember að meðaltali 345 á dag (samtals 26 fréttir þann mánuð).

 

Í desember voru innlitin aftur á móti að meðaltali 664 á dag (sjá línurit yfir mánuði ársins 2013 á myndinni sem hér fylgir). Ekki var þó um að ræða mikinn fréttafjölda miðað við það sem algengt hefur verið síðustu árin (samtals 45 fréttir á móti 92 í sama mánuði árið á undan) heldur var ástæðan sú að meiri vinna var að baki ýmsum þeirra en oft hefur verið.

 

Þannig er fljótafgreiddara að greina frá því að eitthvað frestist (sjá t.d. hér) en að afla heimilda og vinna úr þeim ítarlega samantekt (sjá t.d. hér). Tvö egg og tveir dilkar af fjalli eiga fátt annað sameiginlegt en fjöldann þegar í magann kemur (eða eplin og appelsínurnar margfrægu). Efni sem vekur áhuga og athygli deilist og dreifist víða. Deilingar á Facebook hafa þannig mikið að segja varðandi aðsóknina og innlitin - vinsamlegast hafið það í huga! Tongue out

 

Þessi vefur var opnaður á sumardaginn fyrsta 2008, 24. apríl, en vefteljarinn Google Analytics var tengdur við hann 15. ágúst sama ár. Frá þeim tíma eða í 1.965 daga eru innlit á vefinn samtals 705.343 eða að meðaltali 359 á dag. Frekari tölfræði kemur fram í töflunni hér neðst.

 

Umsjónarmaður hefur haft áhuga á því að gera fleira en það sem lagt var upp með þegar farið var af stað fyrir bráðum sex árum, fleira en að halda utan um hefðbundinn sveitarfélagsvef þar sem birtar væru fundargerðir, samþykktir og tilkynningar, upplýsingar um stofnanir og þjónustu og annað sem varðar stjórnsýsluna í hreppnum. Hann hefur viljað stuðla að því að koma þorpinu litla og notalega á Reykhólum við Breiðafjörð betur „á kortið“ eins og stundum er sagt, og minna landsmenn jafnframt á héraðið víðfeðma til lands og sjávar sem heyrir undir Reykhólahrepp hinn nýja.

 

Ekki svo að skilja að Reykhólar hafi ekki verið á landakortum um langan aldur; umsjónarmanni hefur hins vegar þótt fremur undarlegt þegar vel upplýst fólk, eins og það er kallað, vel upplýst fólk í öðrum landshlutum, hefur hvorki þekkt haus né sporð á Reykhólum. Hefur kannski haldið að þetta væri kirkjustaður í Borgarfirði eða austur í Biskupstungum. Hvort eitthvað hefur mjakast með þessu starfi að koma Reykhólum og Reykhólahreppi frekar „á kortið“ hjá landsmönnum skal ekki metið hér.

 

Tvennt vill umsjónarmaður nefna hér enn úr því að ferð fellur. Annars vegar varðandi auglýsingar á vefnum, hvort heldur er í fréttadálkinum eða auglýsingareitum. Þær eru birtar án endurgjalds, svo framarlega sem þar eiga í hlut fyrirtæki eða fólk í Reykhólahreppi eða fólk sem tengist héraðinu sérstaklega. Ekkert er heldur tekið fyrir að útbúa auglýsingar og auglýsingaborða. Fólk er líka hvatt til að hafa samband til að auglýsa hitt og þetta smálegt og auglýsa eftir hinu og þessu, hvort sem um notaðan ísskáp er að ræða eða móálótt hross eða hvað sem það nú væri. Slíkt gerir vefinn einfaldlega líflegri. Hins vegar skal á það minnt, að vilji fólk koma á framfæri á vefnum einhverju sem er auglýst á dreifimiðum, þá þarf að láta vita af því. Dreifimiðar fara ekki af sjálfsdáðum inn á vefi.

 

Netfang og sími umsjónarmanns eru og hafa alltaf verið neðst á vefsíðunni líkt og almennt gerist á vefjum.

 

 

Nokkrar tölur um það sem sett hefur verið inn á vefinn frá upphafi og núna til áramóta:

  • Fréttir í fréttadálkinum í miðjunni: 3.329.
  • Ljósmyndasyrpur: 100 með samtals 2.579 myndum.
  • Sjónarmið: 220 pistlar og greinar.
  • Fundargerðir hreppsnefndar og undirnefnda sveitarfélagsins: 431, þar af fjölmargar sem eru eldri en vefurinn sjálfur eða allt frá árinu 2003.
  • Tilkynningar: Lauslega áætlað eitthvað um 210-220 (nákvæm tala liggur ekki fyrir vegna þess að vefkerfið geymir ekki nema ákveðinn fjölda og sú elsta hverju sinni dettur út þegar ný kemur inn; þessu var ekki haldið saman framan af).
  • Auglýsingar: Útbúnir hafa verið eitthvað um 230-240 auglýsingaborðar og tenglaborðar (nákvæm tala liggur ekki fyrir; þessu var ekki haldið saman framan af).
  • Ótalið er þá sitthvað annað af ýmsu tagi.

 

Frá upphafi veftalningar Google Analytics 15. ágúst 2008 og núna til áramóta:

  • Meðalfjöldi flettinga í hverju innliti er 3,7.
  • Meðaltímalengd inni á vefnum í hverju innliti er 3 mínútur og 10 sekúndur.
  • Heimsóknir (innlit) eru frá 132 löndum og sjálfstjórnarsvæðum. Innlit í Bretlandi, Noregi, Bandaríkjunum, Danmörku, Þýskalandi, Svíþjóð og á Spáni skipta þúsundum.

 

Lýkur hér áramótaávarpi og skýrslugjöf. Umsjónarmaður þakkar fyrir samstarfið og óskar héraðsfólki blessunar á nýja árinu.

 

S.E.&O.

 

h

 

tölfræði við áramót 2013-2014

 

 

Athugasemdir

Eyvindur, fimmtudagur 02 janar kl: 09:31

Hafðu mikla þökk fyrir hr. umsjónarmaður og gleðilegt ár.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31