Tónlistarkennsla á Reykhólum núna og næsta vetur?
Erindi frá Aldísi Elínu Alfreðsdóttur á Reykhólum varðandi tónlistarkennslu á Reykhólum var lagt fram á fundi sveitarstjórnar Reykhólahrepps í gær. Þar var bókað og samþykkt samhljóða: Sveitarstjórn tekur vel í erindið og vísar því til mennta- og menningarmálanefndar til frekari meðferðar. Erindi Aldísar er svohljóðandi:
Tónlistarkennsla í Reykhólaskóla
- vorönn 2015
Borgar Þórarinsson tónlistarmaður á Hólmavík getur verið með tónlistarkennslu á föstudögum þessa vorönn, fyrir og eftir hádegi. Hugmyndin er að sveitakrakkarnir verði í tímum fyrir hádegi og krakkarnir í þorpinu eftir hádegi. Ef vel gengur hefur hann hug á að koma tvisvar í viku næsta vetur (2015-2016) og kenna á skólatíma. Hann hefur því miður ekki tök á því þessa vorönn sökum annarra anna.
Borgar getur boðið upp á kennslu á gítar, bassa, trommur og píanó (ryþmísk kennsla) og jafnvel upptökutækni / raftónlist (t.d. áhugavert fyrir söngelska krakka).
Rætt hefur verið við Ástu Sjöfn skólastjóra og hún er jákvæð gagnvart tónlistarkennslu innan veggja skólans og leggst þetta því vel í hana. Ástu líst sérstaklega vel á að kennslan verði á skólatíma (tvisvar í viku) á næsta vetri (2015-2016).
Borgar kennir hverjum nemanda í hálfa klukkustund, en hann hefur prófað að kenna nemendum í heila klukkustund og reyndist það of langur tími fyrir nemendurna.
Nefna má að þeir nemendur með ADHD (ofvirkni með athyglisbrest) sem Borgar hefur kennt hafa komið rólegri inn í kennslustund eftir tónlistartímann.
Aðalnámskrá grunnskóla, Almennur hluti 2011 og Greinasvið 2013
- Allir hafa hæfileika til að skapa. Í list- og verkgreinum fá nemendur aðstæður og margvísleg tækifæri til að þroska þann hæfileika, dýpka hann og tileinka sér leiðir til að koma sköpun sinni í verk. [...] Nemendur þroskast í samvinnu við aðra, efla sjálfstæði sitt og sjálfsþekkingu og finna hæfileikum sínum farveg.
- Tónlist er snar þáttur í lífi og starfi manna hvar sem er í heiminum. Hún er leið til sköpunar og tjáskipta, oft án orða, sem einstaklingar fara til að tjá tilfinningar sínar, skoðanir og gildi. [...] Tónlistariðkun krefst líkamlegrar samhæfingar, greinandi hugsunar og tilfinningatengsla.
Óskað er eftir akstursstyrk fyrir Borgar (Hólmavík-Reykhólar-Hólmavík, einu sinni í viku), vorönnina 2015, til þess að tónlistarkennslan geti orðið að veruleika. Með þeim formerkjum þó, að lágmarksþátttaka verði, að um átta nemendur skrái sig í það minnsta. Borgar fékk akstursstyrk fyrir haustönnina 2012, en þá var hann að kenna tvisvar í viku en ekki einu sinni líkt og yrði þessa önn. Gróflega reiknað um 18 dagar á vorönn (u.þ.b. 380 þús.).
Sjá einnig:
23.08.2012 Stefnt að tónlistarkennslu á Reykhólum