Tenglar

8. janúar 2013 | vefstjori@reykholar.is

Torfbærinn veglegi á Reykhólum 1873-1951

Fyrir framan Pál Gíslason sitja Hákon Sveinsson, Lilja Þórarinsdóttir og Ingólfur Pálsson. Nánar í meginmáli.
Fyrir framan Pál Gíslason sitja Hákon Sveinsson, Lilja Þórarinsdóttir og Ingólfur Pálsson. Nánar í meginmáli.
1 af 3

Unnsteinn Hjálmar Ólafsson (Hjalli á Grund) lumar á mörgum gömlum og merkilegum ljósmyndum. Núna sendi hann vefnum mynd sem tekin var þegar Reykhólabærinn gamli var rifinn árið 1951 (mynd nr. 1). Á myndinni er Páll Gíslason á Litlu-Grund ásamt Hákoni Sveinssyni, syni sínum Ingólfi og milli þeirra Lilju Þórarinsdóttur, móður áðurnefnds Unnsteins á Grund og Guðmundar Ólafssonar, sem núna á heima á Litlu-Grund. Á ungum aldri átti Lilja um skeið heima í torfbænum gamla á Reykhólum. Síðar var hún langa ævi húsfreyja á Grund en býr nú í Barmahlíð á Reykhólum, níræð að aldri.

 

Tengdadóttir Lilju, Ásta Sjöfn Kristjánsdóttir, kennari á Litlu-Grund, skrifaði á sínum tíma ritgerð um torfbæinn á Reykhólum þegar hún var við nám í Kennaraháskóla Íslands (tengill hér neðst). Þar er saman kominn margvíslegur fróðleikur um fyrri tíð á Reykhólum ásamt mörgum ljósmyndum úr einkaeigu. Þar á meðal er hluti myndarinnar sem í upphafi var getið. Inn í ritgerðina er felld samantekt Hjartar Þórarinssonar fyrrum skólastjóra, bróður Lilju, um bæinn sjálfan. Þar segir m.a.: 

  • Bjarni Þórðarson reisti þennan bæ 1873-1874. Stærð þessa bæjar og reisn var slík að aðeins bærinn í Rauðseyjum þótti hæfur til samanburðar. Mælieining þeirra tíma var hversu margar hurðir væru á járnum. Reykhólabærinn mun hafa verið með 29 eða 30 hurðir og lofthlera á járnum.

Undir lokin var bærinn orðinn „svo hrörlegur að símastaurar voru reistir upp við þilin svo þau féllu ekki fram á hlaðið. Bærinn var að hruni kominn er hann var jafnaður við jörðu haustið 1951“.

 

Innskot: Þegar þessi samantekt var birt hér á vefnum greindi fólk á um það, hvort ungi maðurinn vinstra megin á mynd nr. 1 væri Gísli sonur Páls (og bróðir Ingólfs) eða ekki. Eins og sjá má í athugasemdum hér fyrir neðan er það komið á hreint. Textanum hér í upphafi máls og undir myndinni hefur verið breytt til samræmis við það og spurning um þetta til lesenda felld út.

 

Mynd nr. 2 er ljósmynd af Reykhólabænum en á mynd nr. 3 er teikning af bænum ásamt uppdrætti af húsaskipan. Höfundur teikninganna er Samúel Eggertsson, teiknarinn og kortagerðarmaðurinn þjóðkunni, uppalinn í Munaðstungu í Reykhólasveit, bróðursonur sr. Matthíasar Jochumssonar frá Skógum í Þorskafirði. Samúel til aðstoðar við að mæla bæinn var áðurnefndur Hjörtur Þórarinsson, sem þá var á fermingaraldri.

 

Smellið á myndirnar að venju til að stækka þær. Hér má sjá mynd nr. 1 enn stærri.

 

Sjá nánar:

Ásta Sjöfn Kristjánsdóttir: Torfbærinn á Reykhólum

Efst er smellt á einstaka kafla ritgerðarinnar og skal vakin athygli á því, að í sumum tilvikum birtast þá einnig undirkaflar hægra megin í línunni.

 

Athugasemdir

Þrymur Sveinsson, rijudagur 08 janar kl: 23:33

Svo var Reykhólabænum lýst af Gunnari St. Gunnarssyni sem var kaupamaður hjá Bjarna á Reykhólum árin 1897 og 1898.
"Bærinn á Reykhólum:
Áður en ég segi frá hinum daglegu störfum á öllum timum árs, ætla ég að lýsa bænum, sem rúmaði allt þetta fólk, er ég hefi sagt frá. Bærinn er þrjú hús samhliða, byggð úr streng; snúa þau í útsuður, 15 álna löng og 6 álna breið, byggð 1873. Undir syðsta húsinu hálfu er kjallarí; loft er í húsinu og upp á þvi er aðal baðstofan; kvistur er út úr hvorri hlið hennar, suðurkvistur og norðurkvistur. Undir loftinu á baðstofunni eru stofur, sín í hvorum enda, önnur í vesturenda. Innsta-stofa, 6 álnir á hvern veg, en hin 5 og 6 álnir, „Kamelsið." Á milli stofanna er hús, 4 álnir á annan veginn, en 10 á hinn og stendur það undir kvistunum báðum gegnum báða veggina. 1 þessu miðhúsi, Pallinum, er hafður vefstóll á vetrum. Þar er og eldavél og uppgangur i baðstofuloft, og gangur niður í kjallarann. Í miðhúsinu er ennfremur lítið matarbúr. Úr þessu miðhúsi, Pallinum, er gangur til dyra með fjalagólfi og alþiljaður með lofti yfir gegnum hin tvö húsin. Að austanverðu við ganginn er í miðhúsinu búr, en i nyrsta húsinu eldhús með hlóðum. Vestanverðu við ganginn, er Miðstofan, en hinum megin Fremsta stofa, báðar með lofti yfir. Loftið yfir Miðstofunni hét Miðloft og gengið í það gegnum Norðurkvistinn, en yfir Fremstu stofunni hét Dyraloft. Þar var búið stundum, þegar margt var, einkum á sumrin. Þangað upp var stigi úr karldyrum, rétt við eldhúsdyrnar. Fyrir vesturstöfnum öllum var samhangandi þil, og þar voru dyr með lítilli forstofu; úr henni var gengið í Innstu stofu og Miðstofu. Fyrír austan gafla bæjarhúsanna, en áfast við þau, eru tvær skemmur með lofti í og samhangandi þili, 5 álna breiðar og 10 álna langar. Út frá eldhúshorninu i austur er salerni og þar undir, 3 álna djúp þró fyrir skolp, og mátti veita for þessari eftir öllu túninu í smá skurðum. Aðal bæjardyr voru á miðjum hliðarvegg nyrzta hússins móti norðri. Var stundum hafður lausaskúr við dyr þessar á vetrum. Á Miðloftinu hélt einkum eldra fólkið til. Var það þar meira út af fyrir sig. Fyrir suðurhlið bæjarins var þil fyrir Suðurkvisti. Kirkjan stóð norðaustur af bænum og nálægt honum í miðjum kirkjugarði. Peningshús eru suðvestur af bænum, fjós fyrir 14 nautgripi, fjárhús fyrir 240 fjár, hesthús fyrir 16 hesta og svo smiðja. Við þessi hús er hlaða, 40 álna löng, 9 álna breið og 9 álnir upp í mæni; þilgaflar á báðum endum. Annars staðar voru svo hús fyrir 180 fjár með hlöðu við, og í þriðja staðnum hús fyrir 100 fjár með hlöðu við. Þá var upp undir fjallinu á Grund (eyðibýli þá) hús fyrir 70 fjár og nokkra hesta. Alls voru því hús yfir um 600 fjár, en svo gekk á öllum vetrum nokkuð af fé úti í eyjunum og nesjunum í landi. Alls voru um 50 hross á bænum."

Helga Játvarðardóttir, rijudagur 08 janar kl: 23:37

Maðurinn sem þið haldið að sé Gísli Pálsson er mágur hans Hákon Sveinsson tvíburabróðir Arndísar Sveinsóttur. Arndís og Gísli áttu heima í Tilraunastöðinni fyrst til að byrja með og fluttu svo að Barmi í Gufudalssveit, seinna fluttu þau suður á Snæfellsnes

Kristín I. Tómasdóttir, mivikudagur 09 janar kl: 13:28

Það er rett hja Helgu. Hákon Sveinsson er vinstra megin við Lilju
á myndinni.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Jl 2024 »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30 31