Torfundin rafmagnsbilun í Þörungaverksmiðjunni
Vegna endurbóta og breytinga í Þörungaverksmiðjunni var Gústi Jökull að saga niður steinvegg þar. Þá vildi ekki betur til en svo, að hann sagaði í sundur rafmagnsinntakið í verksmiðjuna og allt sló út. Hann hringdi í Guðmund á Grund til að tilkynna þetta, en Gummi sagðist ekkert mega vera að því að tala við hann vegna þess að það væri rafmagnslaust í Þörungaverksmiðjunni, sagðist ekkert vita af hverju það væri og skellti á.
Gústi gafst ekki upp og hringdi í Munda Jó sem var að vinna með Gumma, en Mundi sagðist ekki ná neinu sambandi við hann því að hann væri með síma á báðum eyrum að reyna að finna út hvað væri að rafmagninu niðri í verksmiðju.
Ofanritað er úr annálnum hefðbundna sem fluttur var á þorrablótinu á Reykhólum um helgina. Höfundur hans og flytjandi að þessu sinni (eins og stundum áður) var Sveinn Ragnarsson á Svarfhóli í Geiradal. Annálinn er að finna í heild undir Gamanmál af ýmsu tagi í valmyndinni hér vinstra megin. Þar eru ýmsir fleiri annálar misgamlir og annað gamankyns frá þorrablótum í Reykhólasveit. Elstur af því tagi er bragur frá 1946 eftir Játvarð Jökul á Miðjanesi.
Einar Örn Thorlacius fyrrv.sveitarstjóri Reykhólahrepps, mivikudagur 30 janar kl: 08:03
He,he. Bros allan hringinn! Maður hefði auðvitað átt að mæta á þorrablótið...