Tenglar

4. janúar 2009 |

Tóti Þorsteins farinn að afgreiða í fiskbúð - aftur

Tóti við afgreiðsluborðið í fiskbúðinni.
Tóti við afgreiðsluborðið í fiskbúðinni.
1 af 2

Þórarinn Þorsteinsson (Tóti Þorsteins) frá Reykhólum er kominn í land og farinn afgreiða í fiskbúð á ný - eftir hálfrar aldar hlé. Hann hefur verið sjómaður að ævistarfi en tók sjópokann sinn heim í nýliðnum desember og selur nú fisk í staðinn fyrir að veiða hann. Síðast vann Tóti í fiskbúð þegar hann var þrettán og fjórtán ára eða fyrir um hálfri öld. Þá afgreiddi hann í fiskbúðinni hjá Halldóri Sigurðssyni í Vesturbænum í Reykjavík og vafði nætursöltuðum flökum og hausaðri ýsu inn í dagblöð fyrir kaupendur eins og þá tíðkaðist. Það var áður en sellófan og plastpokar riðu yfir Ísland.

 

Halldór Sigurðsson var maður Jósefínu í Nauthól í Djöflaeyjunni. Önnur nafnkunn persóna í þeirri frásögn er Bóbó á Holtinu en Halldór fisksali var stjúpafi hans. Stundum var Tóti sendur úr fiskbúðinni með Sinalco og Camel handa Bóbó þegar hann var þunnur á morgnana.

 

Tóti fluttist aftur vestur á upprunaslóðir sínar á Reykhólum árið 1974 og var búsettur þar í tuttugu ár. Eftir það hefur hann verið með heimili bæði syðra og vestra og verið með sinn fótinn á hvorum stað.

 

Eftir að Tóti hætti í fiskbúðinni hjá Halldóri fór hann á sjóinn fimmtán ára gamall og hefur stundað hann samfellt síðan. Meðan hann var búsettur á Reykhólum var hann á dráttarbátum eða öðrum fleytum Þörungavinnslunnar ellegar á grásleppu.

 

Jafnan er það talinn kostur þegar nýtt fólk er ráðið í fyrirtæki, að starfsreynsla sé fyrir hendi. Hana hefur Tóti eins og áður segir: Tveggja ára praxís fyrir hálfri öld. Munurinn er sá, að sellófan er komið til innpökkunar á fiskinum í staðinn fyrir óselda bunka af Morgunblaðinu, Tímanum og Þjóðviljanum. Og ef til vill Alþýðublaðinu líka, þó að það hafi líklega ekki dugað nema utan um eitt smáýsuflak, nýtt eða nætursaltað.

 

Faðir Tóta var Þorsteinn heitinn Þórarinsson, einn af Reykhólasystkinunum, börnum Steinunnar Hjálmarsdóttur húsfreyju á Reykhólum (1898-1990). Systkini og hálfsystkini Þorsteins og börn Steinunnar: Lilja Þórarinsdóttir á Grund í Reykhólasveit, Hrefna Þórarinsdóttir í Kópavogi, Hjörtur Þórarinsson á Selfossi, fyrrverandi skólastjóri, Anna Þórarinsdóttir í Kópavogi, Kristín Tómasdóttir ljósmóðir í Kópavogi og Sigurgeir heitinn Tómasson á Mávavatni á Reykhólum.

 

Myndirnar tók Indiana Ólafsdóttir á Reykhólum þegar hún brá sér í höfuðstaðinn fyrir stuttu og leit inn til Tóta í fiskbúðina Hafrún að Skipholti 70 (smellið á til að stækka).

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Desember 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31