Tenglar

14. júlí 2008 |

Tumi bóndi á Reykhólum og leyndarmál branduglunnar

Pssssss-ipp pssssss-ipp ...
Pssssss-ipp pssssss-ipp ...
1 af 3

Branduglan er meðal þeirra tæplega sextíu fuglategunda sem verpa í héruðunum við Breiðafjörð og í Breiðafjarðareyjum. Enda þótt hún sé styggur fugl að jafnaði er ekki að sjá að ungarnir hræðist Tuma bónda á Reykhólum (Tómas Sigurgeirsson) heldur leyfa þeir honum að handfjatla sig að vild og sitja sallarólegir á öxlum hans. Branduglan verpir á hverju ári í nýju skógræktinni skammt frá bænum og segir Tumi að þetta séu góðir nágrannar. Ungarnir eru orðnir fleygir og fljótlega eftir að myndin var tekin af unganum sem situr á öxlinni á honum flaug hann sína leið (smellið á myndirnar til að stækka þær).

 

Fuglar sem sitja á öxlum manna hvísla jafnan leyndarmálum, hvort heldur það eru hrafnar eða uglur eða páfagaukar eða aðrar tegundir. Tumi vill ekki ljóstra því upp sem unginn hvíslaði að honum en segir að það muni koma fram seinna. Þessi ungi er einn þriggja sem komust á legg úr hreiðrinu að þessu sinni. Á mynd nr. 3 kúrir annar í felum. Myndirnar voru teknar í húmi sumarnætur eins og vera ber þegar næturdýr eins og uglur eru annars vegar.

 

Tvær uglutegundir finnast hérlendis, snæugla og brandugla. Snæuglan er mun stærri og mjög fáséð. Ólíklegt er talið að hún verpi hér lengur, en fyrrum voru varpstaðir hennar í Ódáðahrauni. Branduglan er einnig fremur sjaldséð hérlendis enda aðeins nokkur hundruð varppör, að talið er.

 

Guðmundur Páll Ólafsson náttúrufræðingur og ljósmyndari segir svo um brandugluna í hinu mikla riti sínu Fuglar í náttúru Íslands (MM 1988):

 

Hún er fremur stygg og vör um sig og helst á ferli í ljósaskiptunum, enda þótt hún sé bæði dag- og náttfugl. Kjörlendi hennar eru mýrar og lyngheiðar, gjarnan innan um kjarr. Hún er láglendisfugl og auðþekkt frá öðrum íslenskum varpfuglum, en af ofangreindum ástæðum er hún sjaldséð. Hún er staðfugl að einhverju leyti, en óvíst í hvaða mæli hún heldur sig hér á veturna.
[...]

 

Veiðihæfileikar branduglu eru með ólíkindum vegna líkamlegs atgervis. Allt útlit uglunnar er aðlagað fjölbreyttum veiðiaðferðum, sem eru með ýmsu móti. Hún flýgur og svífur niður að bráðinni, eða hnitar í lofti og stingur sér eftir henni. Stundum eltir hún fugla eða krækir sér í ófleyga unga með klóm og kjafti í senn. Þannig getur hún náð einum með klónum og öðrum með nefi. Hún situr líka í felum, hlustar og glápir og þegar hún heyrir jafnt með báðum hlustum er bráðin í sigti og skiptir þá litlu hvort um nótt eða dag er að ræða.

 

Ugluklær eru hárbeittar og griphæfni þeirra undraverð. Fætur branduglu eru kröftugir miðað við hinn smávaxna búk innan um fjaðrahaminn. Bráðina flýgur karluglan með í hreiðrið, en sé karlfuglinn svangur, þá gleypir hann bráðina lifandi eða dauða. Þannig fara fullorðnar uglur að, nema þegar bráðin er stór. Mýs eru gleyptar heilar, höfuðið fyrst, en rottur og smáfuglar líklega í tvennu lagi. Ætið aflimar kvenuglan við hreiðrið meðan afkvæmin eru ung. Það er álit sumra að branduglan geti fiskað í matinn, en það er harla ólíklegt þótt hún sé veiðikló.
[...]

 

Varla getur branduglan talist mikill söngvari. Hljóð hennar einkennast af gelti, hvæsi og vængjasmellum. Algengust eru: Tsjeff tsjeff tsjeff ..., Tsé tsé tsé ..., Séé séé séé ... eða álíka. Þau minna á gelt og eru tuðuð mismunandi við ólíkar aðstæður, stundum tákn samskipta kynjanna, stundum til að aðvara ungana um að hætta steðji að. Þekktari eru hin lágróma: Búúúúú búúúúú búúúúú ... tómahljóð hennar. Þessi hljóð túlkast sem auglýsing eða tilkynning af ýmsum toga. Þau geta líka verið merkjasendingar hjónanna til annarra fugla um varpsetrið og þá aðvörun í senn. Raddir unganna eru lítt þroskaðar. Þeir hvæsa: Pssssss-ipp pssssss-ipp ... eða: Kvissss-sipp kvissss-sipp ... þegar æti er annars vegar.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31