Tenglar

17. júní 2011 |

Tvær nýjar bækur að vestan um Jón forseta

1 af 2
Vestfirska forlagið sendir frá sér þessa dagana tvær bækur um Jón forseta Sigurðsson frá Hrafnseyri við Arnarfjörð - aðra á íslensku, hina á ensku. Í dag, 17. júní, eru 200 ár liðin frá fæðingu hans. Önnur bókanna nefnist Maður sem lánaðist og hefur að geyma umfjöllun af ýmsu tagi ætlaða íslenskum almenningi um Jón forseta í tilefni tímamótanna í samantekt Hallgríms Sveinssonar. Fjallað er um uppruna og helstu áfanga á æviferli Jóns. Umsagnir samtíðarmanna eru áberandi en ætla verður að þeir geti trútt um talað. „Hverja ætti svo sem frekar að kalla til vitnisburðar um þennan óskason Íslands?“ spyr Hallgrímur. Ýmislegt annað markvert og jafnvel smálegt sem vel má rifja upp ber á góma.

 

Bókin We Call Him President er á ensku og einnig eftir Hallgrím Sveinsson. Stutt og laggóð ævisaga í hnotskurn með mörgum ljósmyndum, þar á meðal öllum þeim myndum sem vitað er um af Jóni á ýmsum aldri. Þessi bók er einkum ætluð erlendu ferðafólki sem kemur í heimsókn til Íslands. Haukur Ingason þýddi bókina á ensku.

 
Höfundur bókanna, Hallgrímur Sveinsson, var staðarhaldari á Hrafnseyri í áratugi. Hann er manna fróðastur og áhugasamastur um Jón forseta, ævi hans og störf, og hefur áður gefið út alþýðleg og aðgengileg rit um hann. Hallgrímur og Guðrún Steinþórsdóttir eiginkona hans dvöldust jafnan á Þingeyri á vetrum, þar sem hann var skólastjóri á sínum tíma, en höfðu vetrarmann á Hrafnseyri til að annast sauðféð. Núna eru þau hjónin búsett á æskuslóðum Guðrúnar á Brekku í Dýrafirði.
 

Þess má geta, að hjá mörgum er tekið að fyrnast yfir ástæðu þess að Jón Sigurðsson var og er jafnan kallaður Jón forseti. Sumir halda að hann hafi verið fyrsti forseti Íslands. Því fer víðs fjarri enda varð það embætti ekki til fyrr en árið 1944, tæpum sextíu og fimm árum eftir andlát Jóns.

 

Ástæðan er sú, að Jón var forseti Kaupmannahafnardeildar Hins íslenska bókmenntafélags, sem var mjög öflug í menningarlífi Íslendinga og útgáfustarfi. Á þeim tíma voru margir helstu „menningarvitar“ Íslendinga lengur eða skemur í Kaupmannahöfn og íslenskir stúdentar fóru til náms við Kaupmannahafnarháskóla. Reyndar varð það til að hnykkja enn á forsetanafnbótinni, að Jón var einnig forseti Þjóðvinafélagsins og löngum forseti Alþingis.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« September 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30