Tveir Land-Roverar og Sabb (ekki Saab)
Bátasmíðavefur Hjalta Hafþórssonar á Reykhólum lætur sig fleiri samgöngutæki varða en báta. Núna er þar greint í máli og myndum frá liðlega fimmtugum Land-Rover sem þúsundþjalasmiðurinn Unnsteinn Hjálmar Ólafsson (Hjalli á Grund) er að gera upp. Jafnframt kemur við sögu Sabb-vélin í báti Hjalta sem hafði gengið eins og klukka allt frá 1968 en hikstaði fyrir skömmu í fyrsta sinn.
Einhverjir sem eru slæmir í bátavélum en telja sig frekar góða í stafsetningu héldu fyrst að Sabb væri misritun fyrir Saab á vefnum hjá Hjalta. Það var misskilningur - Sabb eru norskar bátavélar en Saab er heitið á sænskum flugvélaverksmiðjum sem hafa líka framleitt bíla.
Myndirnar sem hér fylgja eru fengnar af téðum vef. Á mynd nr. 3 er „nýi“ Land-Roverinn hans Hjalta að bakka með bátinn Spreng út í sjó (þá var Sabb-vélin ennþá í lagi). Þessi Land-Rover er allmiklu yngri en bíllinn sem Hjalli á Grund er að fást við um þessar mundir eða árgerð 1972 og því líka nokkrum árum yngri en Sabbinn.
Lætur sig fleiri samgöngutæki varða en báta? Aldrei að vita nema næst verði þar greint frá flugvélum, kannski sænskum orustuþotum af gerðinni Saab ...
Miklu meira um þetta á bátasmíðavefnum