Tenglar

20. janúar 2014 | vefstjori@reykholar.is

Tveir kaflar birtir á netinu á mánuði

Arnþór Sigurðsson.
Arnþór Sigurðsson.

Arnþór Sigurðsson, sem tengdur er Reykhólum á ýmsa vegu, er að skrifa barna- og unglingabók sem hann gefur út á netinu og nefnist Leiðangurinn frá Norðurey. Útgáfan er nokkuð óvenjuleg því að bókin er gefin út í áskrift og í hverjum mánuði eru birtir tveir nýir kaflar. „Sagan er nú ekki Reykhólasaga en hún hefst engu að síður á Vestfjörðum,“ segir Arnþór. „Það er hægt að lesa sér til um hana á vefnum sem ég opnaði núna um áramótin.“

 

Slóðin á vefinn er www.horfinnheimur.is.

 

Brandís Árnadóttir amma Arnþórs var frá Kollabúðum í Þorskafirði en ólst upp á Miðhúsum í Reykhólasveit. Hún fluttist til Reykjavíkur og giftist Ólafi Bjarnleifssyni. Sonur þeirra og faðir Arnþórs, Sigurður E. Ólafsson, var ungur sendur í sveit vestur á Reykhólum. Hann var fæddur 1923 og var meira og minna á Reykhólum allt til ársins 1957, þegar hann og Ísafold Guðmundsdóttir eiginkona hans settust að í Kópavogi.

 

„Faðir minn var m.a. vinnumaður í Tilraunastöðinni á Reykhólum, eða Álftalandi eins og húsið heitir í dag. Hann og frændi hans Þorsteinn Þórarinsson byggðu saman smiðjuna sem varð síðar að Mávavatni þar sem Sigurgeir Tómasson og Dísa Ragnheiður Magnúsdóttir hófu búskap. Smiðjan varð síðar verkstæði eftir bruna og þar er nú Sjávarsmiðjan. Sjálfur kom ég oft á Reykhóla á uppvaxtarárum og að endingu fór ég að hafa sumardvöl um þrettán ára aldur hjá mági mínum og systur, Tómasi Sigurgeirssyni og Svanhildi Sigurðardóttir. Sumurin urðu nokkur á Mávavatni og einn vetur var ég í Reykhólaskóla.“

 

Arnþór Sigurðsson er fæddur árið 1966. Hann lærði kjötiðn og útskrifaðist árið 1986 en settist síðar á skólabekk á ný. „Ég lærði tölvunarfræði, sem ég hef reyndar ekki klárað, en starfa í tölvugeiranum í dag.“

 

Þess má geta að Arnþór er höfundur Reykhólabrags, bæði lags og texta, sem var meðal framlaga í sönglagakeppni Reykhóladaga sumarið 2012.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31