Tenglar

25. desember 2012 |

Tvö kirkjufok og búferlaflutningar Reykhólakirkju

Úr Lesbók Morgunblaðsins 1976.
Úr Lesbók Morgunblaðsins 1976.
1 af 10

Friðuð hús í Reykhólahreppi eru sjö talsins, að því er fram kemur á vef Húsafriðunarnefndar. Þar af eru fjögur í Flatey og eitt í Svefneyjum og síðan kirkjurnar á Stað á Reykjanesi og í Gufudal. Hér skal þó nefna til sögunnar eitt friðað hús enn, Reykhólakirkjuna gömlu, sem nú þjónar í Saurbæ (Bæ) á Rauðasandi á norðurströnd Breiðafjarðar. Tiltækum heimildum ber ekki fyllilega saman um byggingartíma hennar.

 

Á vef Húsafriðunarnefndar segir, að Reykhólakirkja hafi verið byggð „á árunum 1855-1859“. Frásögn og heimildir Harðar Ágústssonar, sem fram koma hér fyrir neðan og eru nokkuð á annan veg, mega teljast glöggar og trúverðugar, að því er virðist.

 

Þegar timburkirkjan á Reykhólum var nýreist fyrir liðlega hálfri annarri öld fauk hún í ofsaveðri en var endurbyggð. Það átti síðan fyrir henni að liggja að flytjast á Rauðasand í fyllingu tímans eftir að gamla kirkjan þar fauk svo gersamlega, að ekkert stóð eftir nema predikunarstóllinn.

 

Núverandi kirkja á Reykhólum var vígð 8. september 1963. Gamla kirkjan stóð hins vegar í rúman áratug eftir það eða fram til 1975, þegar hún var tekin ofan, allir viðir merktir þannig að auðvelt yrði að koma kirkjunni einhvers staðar upp á ný, ef svo bæri undir, og fluttir suður á land til varðveislu.

 

Þar hafði Reykhólakirkja í búntum þó stuttan stans því að fljótlega var ákveðið að flytja hana vestur á Rauðasand og endurreisa hana í Saurbæ, þar sem kirkjan hafði fokið í ofsaveðri í lok janúar 1966, rétt um aldargömul. Þjóðminjasafnið og Húsafriðunarsjóður stóðu að endurbyggingu Reykhólakirkju á Rauðasandi og hafði Hörður Ágústsson umsjón með verkinu. Var kirkjan vígð að nýju á þessum stað 5. september 1982.

 

Í tímaritinu Birtingi, 1.-2. tbl. 1962, er ítarleg frásögn áðurnefnds Harðar Ágústssonar listmálara af rannsókn á gömlu kirkjunum á Reykhólum og Stað á Reykjanesi árið áður. Hörður er sá maður sem mest hefur rannsakað íslenska húsagerðarlist fyrri tíma. Hann segir m.a. í grein sinni:

 

Á Reykhólum er rúmlega hundrað ára gömul kirkja. Fyrir vestan töldu menn hana reista á árunum 1855-1857 og héldu upp á vígsluafmælið í september 1957. Þetta er rangt, eins og sjást mun hér á eftir. Kirkjan er vígð 22. júní 1856. Gamlir menn sögðu hana hafa fokið nýreista. Tvennt styður þá sögu við nánari athugun á kirkjunni. Í henni eru skástífur fjórar, sem ganga tvær til hvorrar handar frá veggsyllu að innan og næstum fram á mitt gólf. Hitt er, að á ólíklegustu stöðum eru tappaför í stoðviði, en slíkt er hægt að sjá í forkirkju og turni, þar sem klæðning skýlir ekki grind. Ætla má, að reynt hafi verið að nota eins mikið úr braki hins fokna húss og unnt hafi verið, og skábitarnir benda til þess, að sá sem endurreisti kirkjuna hafi hugsað sem svo, að hún skyldi ekki fjúka í annað sinn. Þetta er staðreynd: Reykhólakirkja fauk nýreist í ofsaveðri 22. september 1853, og segir svo í vísitasíubók Ólafs Sívertsen prófasts í Flatey á Breiðafirði fyrir árið 1853 um Reykhóla: 

„Síðastliðið vor var byrjað að reisa stóra og vandaða trjáviðarkirkju í garðinum norðan við gömlu kirkjuna, sem nú stendur órifin og í henni er af sóknarprestinum embættað eins og áður eftir tiltölu. Hin nýja kirkja var þegar fullsmíðuð [hér er vísað niður og sagt: einungis að utan] með klukkuporti uppaf, þegar hið mesta ofsaveður og fellibylur fleygðu henni um koll og brutu mikið þ. 22. næstl. septembermánaðar. Þannig verður að vera sem komið er fyrst til næsta sumars eins og allir hennar byggingarreikningar eru hér óáhrærðir sem og mikið hafa hlaupið sig.“ 

20. júní 1854 segir ennfremur: 

„Hin nýja kirkja, sem reist var í fyrra liggur niðurfallin og brotin norðanvert í kirkjugarðinum eins og þá var sagt.“ 

28. okt. 1855: 

„Nú er aftur með ærnum tilkostnaði reist ný og vönduð trjáviðarkirkja norðanvert við hina gömlu á síðastliðnu sumri, en fyrir því, að þetta hús er ennþá ekki fullsmíðað að innan, framfer embættisgjörðin í gömlu kirkjunni.“ 

Og 1856: 

„Þ. 22. júnímánaðar var héraðsprófasturinn nálægur að Reykhólum og þann sama dag vígði hann þar í messu hina nýsmíðuðu prýðilega vönduðu trjáviðarkirkju í nærveru fjölskipaðs safnaðar. Stendur kirkja þessi norðanvert við hina gömlu, sem nú er niðurrifin ... og verður þar nú bætt við lýsingu þessarar kirkju, sem álitin er vera ein meðal þeirra allra vönduðstu kirkna vestanlands, er hún prýdd með klukkuporti, forkirkju, nýju altari vönduðu með því samboðnum grátum og nýjum predikunarstól eins og allt innanhúss er nýtt og vandað svo sem húsið sjálft. Trjáveggir hennar eru allir plægðir og á nú þegar að leggja lista utan yfir plægingar þessar.“

 

Auk ummæla prófasts um fok kirkjunnar stendur í reikningum yfir byggingarkostnað Reykhólakirkju: „Smíðalaun á kirkjunni sjálfri og fyrir að rjúfa brotnu kirkjuna 565,40 ríkisdalir.“ Kirkjan hefur þó ekki verið fullsmíðuð á vígsludegi. Ef flett er áfram í vísitasíubók prófasts sést, að dregizt hefur á langinn að ljúka kirkjunni. Á tíma er húsið farið að leka og liggur undir skemmdum. Auðsætt er, að prófastur á í einhverju stappi við sóknarbörn sín út af ásigkomulagi kirkjunnar, og líklega hefur hún ekki fengið fullar endurbætur fyrr en Bjarni Þórðarson tók við Reykhólum í kringum 1874. Segir mér sannort fólk, að Bjarni, sem var þjóðhagi, hafi lagað kirkjuna mikið. Auk þess reisti hann um líkt leyti stóran og sérkennilegan sveitarbæ, sem frægur var um land allt. Hefur á þeirra tíma mælikvarða verið staðarlegt að líta heim að Reykhólum, þegar Bjarni hafði komið húsakosti í slíkt ágætis horf.

 

_____________________

 

Staðarkirkja og Reykhólakirkja eru ekki stór hús, en sérlega geðþekk listaverk. Við yfirborðslega og hvatskeytlega athugun kynni margur að álykta, að hér sé aðeins um að ræða fúna og skælda timburhjalla, sem bezt væri að rífa sem fyrst. En hús þessi eru ótrúlega fögur í látleysi sínu og hógværð, yfir þeim er klassískur blær.

 

Þetta var úr grein Harðar Ágústssonar fyrir hálfri öld.

 

Varðandi myndir sem hér fylgja: 

  • Mynd nr. 1 er úr Lesbók Morgunblaðsins 4. apríl 1976 með grein eftir Þór Magnússon þjóðminjavörð: Reykhólakirkjan gamla.
  • Myndir nr. 3, 5 og 8 eru úr skjalasafni Húsameistara ríkisins hjá Þjóðskjalasafni Íslands.
  • Mynd nr. 6 er úr fórum Unnsteins Hjálmars Ólafssonar á Grund í Reykhólasveit. Enda þótt mánuður og ártal séu á jaðri hennar verður að minna á, að það þarf ekki að segja annað en að myndin hefur ekki verið tekin seinna en þetta. Merking þessi sýnir aðeins hvenær myndin var kópíeruð af filmu og vissulega getur slíkt verið gert löngu eftir tökudag.
  • Myndir nr. 9 og 10 eru með grein Harðar Ágústssonar í tímaritinu Birtingi, 1.-2. tbl. 1962, vafalítið teknar árið 1961.

 

Athugasemdir, ábendingar og leiðréttingar vel þegnar.

 

Athugasemdir

Þrymur Sveinsson, rijudagur 25 desember kl: 23:21

Þegar gamla kirkjan var tekin niður spítu fyrir spítu og flutt vestur á Saurbæ á Rauðasandi fundust fornir naglar í grunni kirkjunnar. Var það álit manna sem sáu naglana að þetta væru naglar sem smíðaðir voru í smiðju Páls Guðmundssonar á Grund. Smíðaður var skammtur af nöglum og sent með þá ofaneftir eftir þvi sem þurfti er gekk á byggingu kirkjunnar. Þessir naglar eiga að vera varðveittir meðal gripa í vísi af byggðasafni Reykhólahrepps, sem var enn á vergangi síðast þegar ég vitjaði heimasveitar minnar sl. sumar.

Kristín Ingibjörg Tómasdóttir frá Reykhólum, laugardagur 07 september kl: 17:47

Steindu gluggana í kór kirkjunnar gaf Hjörtur Hjálmarsson, skólastjóri á Flateyri og bróðir Steinunnar Hjálmarsdóttur húsfreyju á Reykhólum, til minningar um eiginkonu sína Rögnu Sveinsdóttur og móður sína Kristínu Þorsteinsdóttur.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Jl 2024 »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30 31