Tenglar

29. október 2016 | Umsjón

Um 28 milljónir til viðhalds fasteigna á þessu ári

Hólabúð í stækkaðri og breyttri mynd.
Hólabúð í stækkaðri og breyttri mynd.

Meðfylgjandi tölvuteikningar af Hólabúð á Reykhólum stækkaðri og breyttri eru í greinargerð Hjalta Hafþórssonar, umsjónarmanns fasteigna Reykhólahrepps, sem lögð var fram til kynningar á síðasta sveitarstjórnarfundi. Þar er um að ræða yfirlit um framkvæmdir Reykhólahrepps á þessu ári, en Hólabúð hefur þá sérstöðu í því efni, að ekki hefur formlega verið tekin ákvörðun um stækkun hússins, sem er í eigu Reykhólahrepps. Ekki er ósennilegt að málið verði til umfjöllunar á næsta fundi sveitarstjórnar. Í greinargerðinni segir hins vegar, að rekstraraðilar búðarinnar stefni að því að fá veitingaleyfi og vínveitingaleyfi næsta sumar.

 

Í inngangi greinargerðarinnar segir, að í fjárhagsáætlun fyrir árið 2016 hafi verið svigrúm til að fara í framkvæmdir í umhverfinu kringum stofnanir Reykhólahrepps (sjá m.a. nánar hér), með það fyrir augum að ganga endanlega frá lóðum og nærumhverfi stofnananna.

 

Verkefnin sem unnið hefur verið að, eins og fram kemur í greinargerðinni, eru hins vegar miklu fleiri og fjölbreyttari. Þar er um að ræða húsakynni grunnskólans, leikskólans og Barmahlíðar, hafnarsvæðið, vatnsveituna, Kvenfélagsgarðinn, tvær af þremur réttum hreppsins, Stjórnsýsluhúsið, Grettislaug og viðhald gatna.

 

Niðurlagskafli greinargerðarinnar er á þessa leið:

  • Endanlegur kostnaður vegna framkvæmda í ár liggur ekki fyrir, þar sem vinna er enn í gangi og fjárlagaári ekki lokið. Áætlanir gera þó ráð fyrir að endanlegur kostnaður vegna hönnunar og framkvæmda við lóðir og opin svæði, svo sem lóð Barmahlíðar, svæði tengd skóla og íþróttahúsi og Kvenfélagsgarði verði um kr. 22.800.000.
  • Viðhald fasteigna er enn í gangi, en miklar framkvæmdir hafa verið á árinu. Áætlun gerir ráð fyrir að kostnaður vegna viðhalds fasteigna verði um kr. 28.000.000 í ár, en þar munar mest um framkvæmdir við grunnskólann.
  • Kostnaður vegna úttektar VSÓ vegna viðhaldsáætlunar grunnskólans var kr. 1.200.000. Kostnaður vegna ráðgjafar ÍSOR við úrlausn kaldavatnsmála er áætlaður um kr. 1.200.000. Samtals verður því kostnaður við ráðgjöf um kr. 2.400.000.

 

Fjöldi mynda og uppdrátta er í greinargerðinni, sem sækja má hér (pdf, liðlega 5 MB).

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31