Tenglar

31. ágúst 2010 |

Um 400 manns sóttu viðburði laugardagsins

Byggðarhátíðin Reykhóladagar um síðustu helgi var sú viðamesta til þessa enda stóð hún ekki aðeins einn dag eins og verið hefur heldur spannaði frá föstudagskvöldi og fram á sunnudag. Ásta Sjöfn Kristjánsdóttir „einkaritari“ Bjarkar Stefánsdóttur formanns undirbúningsnefndar hefur tekið saman nokkra punkta um viðburði, aðsókn og úrslit í keppnisgreinum.

 

Hátíðin hófst með því að um fimmtíu manns mættu í grillpartí í Hvanngarðabrekkunni á Reykhólum. Síðan var hin hefðbundna spurningakeppni þar sem spyrillinn Egill Sigurgeirsson fór á kostum. Dómari var Gauti Eiríksson og aðstoðarmaður sr. Elína Hrund Kristjánsdóttir. Átta lið kepptu, þ.e. Sveitarstjórn, Snillingarnir, Sambýlingarnir, Reykhólaskóli, Hríshólsfeðgar, Gullsteinn, Karlsey og Ripp, Rapp og Rupp, sigurvegararnir í fyrra. Til úrslita kepptu Snillingarnir (Guðmundur Ólafsson, Dalli og Eiríkur Kristjánsson) og Sambýlingarnir (Hekla Karen, Olga Þórunn og Dagur). Svo fór að Sambýlingarnir sigruðu 17-10.

 

Á laugardagsmorgun var gengið inn að Laugalandi við Þorskafjörð en fáir tóku þátt í göngunni. Gönguferðinni sem var undir leiðsögn Björns Samúelssonar lauk með því að hlustað var á 78 snúninga hljómplötur í húsinu á Laugalandi.

 

Vel var mætt í súpu á ýmsum stöðum í hádeginu og sums staðar fram eftir degi. Steinar í Álftalandi taldi að hann hefði tekið á móti um 200 manns í súpu yfir daginn.

 

Hægt var að finna ýmiskonar varning og matvöru í markaðstjöldunum á Reykhólum, svo sem rauðmaga, ábrestir og handverk af mörgu tagi.

 

Hrefna Karlsdóttir á Kambi og Helena Ýr Harðardóttir á Tindum voru með myndlistarsýningu í Reykhólaskóla.

 

Guðmundur Hallgrímsson stjórnaði dráttarvélakeppninni af stakri snilld. Þar stóð Hörður Grímsson á Tindum uppi sem sigurvegari.

 

Í pabbakeppninni þurftu núverandi og tilvonandi feður að leysa ýmis verkefni, svo sem að skipta um bleyju, greiða hár, pakka inn afmælisgjöf og smyrja samloku. Egill Sigurgeirsson lenti í þriðja sæti, Ásbjörn sonur hans í öðru sæti og reynsluboltinn Hugó Rasmus í því fyrsta, enda þriggja barna faðir og afi.

 

Ungir sem aldnir prófuðu sig í þörungahlaupinu þar sem hlaupið var á blautum þara. Sigurvegarar voru Matthías Óli og Dagur.

 

Talið er að um 400 manns hafi komið á viðburði laugardagsins. Það verður að teljast nokkuð gott því að íbúar Reykhólahrepps eru innan við 300 talsins.

 

Á kvöldverðinum í íþróttahúsinu á Reykhólum voru um 260 manns. Bjarkalundur sá um matinn en félagar í Lionsklúbbnum önnuðust framreiðsluna og stóðu sig vel. Veislustjóri var Sólmundur Hólm. Leikfélagið Skrugga sýndi hversu hæfileikaríkar og fallegar konur við eigum. Hrefna Jónsdóttir og Kristján Gauti Karlsson spiluðu á gítar og sungu. Hljómsveitin Skógarpúkarnir lék síðan fyrir dansi.

 

Á sunnudaginn buðu Erla og Jens í Mýrartungu heim, þar sem gestum gafst kostur á að skoða fjósið. Handverksfélagið Assa var með opið í Króksfjarðarnesi, þar sem borðin svignuðu af hnallþórum handa gestunum. Einnig notfærði fólk sér að skola sig eftir helgina í sundlauginni í Djúpadal.

 

Undirbúningsnefnd Reykhóladaganna vill nota tækifærið og þakka félagasamtökunum sem komu að hátíðinni kærlega fyrir alla hjálpina og fyrir að sinna svona óeigingjörnu starfi. Íbúum Reykhólahrepps er jafnframt þakkað fyrir að gera allt sem í þeirra valdi stóð til þess að skreyta í kringum sig. Án íbúanna er ekki hægt að halda svona hátíð. Ekki má gleyma að minnast á veðurguðina sem ákváðu að vera hliðhollir, létu sólin skína og gáfu Kára frí.

 

Athugasemdir

Kolfinna Ýr, rijudagur 31 gst kl: 21:59

Frábær dagskrá og skemmtilegur dagur. Mér fannst líka svo gaman að sjá hvað unga fólkið var duglegt að taka þátt.

Ingi B Jónasson, mivikudagur 01 september kl: 10:54

Frábært lamb hjá Steinari í Álftalandi og virkilega góðar súpur hjá betri helmingi Jónasar, endilega haldið áfram með svona daga næsta ár ! til hamingju öll sem að þessu stóðu .

María Játvarðardóttir, mivikudagur 01 september kl: 15:01

Þakka fyrir mig. Ég hafði sérstaklega gaman af að koma og taka þátt í dagskránni. Einstakt var að fá að hlusta á dægurlag af 78 snúninga plötu af grammófóni hjá Guðmundi á Laugalandi. Auðvitað er ég afar stolt af eiginmanninum að vinna pabbakeppnina og finnst rétt að bæta því við að ég á mynd af honum þar sem hann ók Hrefnu dóttur okkar í barnavagni sumarið 1979. Ég hef velt því fyrir mér hvort það séu til eldri myndir á Reykhólum af feðrum sem aka barnavagni en það var fremur fáséð á þeim árum.
Hlakka til að koma næsta ár,
María Játvarðardóttir.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30