Tenglar

2. febrúar 2011 |

Um fornleifarannsóknir í Reykhólasveit

Frá uppgreftinum á Hofsstöðum.
Frá uppgreftinum á Hofsstöðum.
Í tilefni af síðustu fréttinni hérna á undan, þar sem auglýst er eftir umsóknum um styrki úr fornleifasjóði, er sett hér inn fréttagrein sem undirritaður skrifaði umbeðinn haustið 2006 fyrir eitthvert blað, sennilega Morgunblaðið, og fann geymda í tölvunni. Jafnframt tók undirritaður þá myndir frá fornleifagrefti á Hofsstöðum og fylgir hér ein þeirra.

 

 

 

Fornleifa- og söguhringur í Reykhólasveit 

Miðaldakirkja grafin upp á Hofsstöðum við Þorskafjörð

 

Miðaldakirkja með hringlaga kirkjugarði kom í ljós við fornleifarannsóknir á Hofsstöðum við Þorskafjörð í Reykhólasveit í Austur-Barðastrandarsýslu í sumar og haust. Jafnframt kom í ljós að þúst þar í túninu, sem lengi hefur verið talin hoftóft frá heiðnum sið, er náttúrumyndun. Rannsóknum þessum stjórnaði Guðrún Alda Gísladóttir, fornleifafræðingur hjá Fornleifastofnun Íslands. Hún segir brýnt að frekari rannsóknir verði gerðar á Hofsstöðum.

 

Með Guðrúnu Öldu störfuðu að þessum rannsóknum fornleifafræðingarnir Hildur Gestsdóttir, Howell M. Roberts og Oddgeir Hansson auk Óskars Leifs Arnarssonar fornleifafræðinema. Markmiðið var að afla upplýsinga um það sem talin voru vera fornleg mannvirki í túninu á Hofsstöðum, sem nefnd hafa verið Hoftóft og Bænhúshóll. Ákveðið var að kanna hvort þar væri um mannvirki að ræða og þá hvers konar, gera forkönnun á minjum sem kæmu í ljós og kanna ástand þeirra og vísindalegt gildi fyrir frekari rannsóknir á staðnum.

 

Fornleifarannsóknin á Hofsstöðum á sér nokkurn aðdraganda. Hún er hluti af samstarfsverkefni Fornleifastofnunar Íslands og heimamanna, sem eru aðilar að Ferðamálafélagi Dalasýslu og Reykhólasveitar, með stuðningi sveitarstjórnar Reykhólahrepps. Á síðasta ári var Grettislaug á Reykhólum rannsökuð og jafnframt var grafið í kumlateiga úr heiðni í botni Berufjarðar í Reykhólasveit. Fyrir tveimur árum voru þingminjar á Kollabúðum í Þorskafjarðarbotni mældar upp.

 

Minjarnar á þessum stöðum mynda áhugaverðan fornleifa- og söguhring í Reykhólasveit. Fáar fornleifarannsóknir hafa verið gerðar á sunnanverðum Vestfjörðum og hér hefur því gefist kærkomið tækifæri til að bæta við þekkingu á menningarsögu héraðsins. Mikill áhugi er á frekari rannsóknum á svæðinu, sem og því að gera þessum minjum hærra undir höfði og gera þær sýnilegri almenningi. Áhugi heimamanna á rannsóknunum var mikill og komu fjölmargir í heimsókn meðan á uppgreftinum stóð, auk þess sem nemendur Reykhólaskóla komu í vettvangsferð.

 

Hofsstaðir við Þorskafjörð hafa vakið athygli fræðimanna um langt skeið og frá 19. öld hafa margir þeirra komið þar, bæði íslenskir og erlendir. Ástæðurnar voru að líkindum tvenns konar, annars vegar forvitnilegar minjar í túninu og hins vegar Þorskfirðinga saga (Gull-Þóris saga) sem greinir frá hofi á Hofsstöðum. Fyrst þegar fræðimenn komu á staðinn var hringlaga þústahóll neðan bæjar kallaður Hofhóll og talið að þar hefði hofið staðið. Þúst þar skammt frá sem minnti menn á langhús var kölluð gildaskáli. Síðar breyttust hugmyndir fræðimanna og farið var að kalla hringlaga þústina Bænhúshól en langhúslegu þústina Hoftóft.

 

„Við rannsóknirnar núna kom í ljós að Hoftóftin svonefnda, sem er 24x7 metrar að stærð, reyndist vera náttúrumyndun í túninu“, segir Guðrún Alda. „Í kringum grunna vatnsrás hafa þúfur byggst upp og myndað það sem sýnist á yfirborði vera skálalaga rúst. Hinn svokallaði Bænhúshóll er um 20x20 metrar að stærð, nálega sléttur að ofan en kargaþýfður. Um það bil 30 cm undir yfirborði komu í ljós leifar vel varðveittrar kirkju auk grafa. Yfirborðið utan við kirkjuna var mjög hreyft, sem bendir til að hugsanlega hafi verið þétt grafið á þeim stað sem rannsakaður var fast vestan við kirkjuna. Tvær grafir voru opnaðar að nokkru til þess að staðfesta að um grafir væri að ræða og voru mannabein í báðum og leifar trékistu í annarri. Ekki er hægt að fullyrða um stærð kirkjunnar á þessu stigi en ljóst er að hún er meira en 5 metra breið. Í veggjum hennar er stærðargrjót og við rannsóknina mátti greina fleiri en eitt byggingarstig“, segir Guðrún Alda Gísladóttir fornleifafræðingur. Hún nefnir að jafnframt sé fróðlegt að sjá hvernig hugmyndir manna um það hvernig hof ættu að líta út breyttust með tímanum og færðust af hringlaga mannvirkinu yfir á langhúslegu þústina í túninu á Hofsstöðum.

 

Í vetur verður unnið úr þeim gögnum sem safnað var og lagst í heimildarannsóknir, en að sögn Guðrúnar Öldu er ljóst eftir þessa forkönnun að kirkjan er allrar athygli verð, stæðilega byggð og vel varðveitt. „Það væri mikill akkur“, segir hún, „ekki aðeins fyrir sveitarfélagið og sögu þess heldur einnig á landsvísu, að frekar rannsóknir færu fram á mannvirkinu og umhverfi þess. Mikil gróska hefur verið í kirkjurannsóknum undanfarin ár og hefur Fornleifastofnun Íslands komið að fornleifarannsóknum á kirkjum að Neðra-Ási í Skagafirði, Hofstöðum í Mývatnssveit, Gásum í Eyjafirði og Reykholti í Borgarfirði, auk viðamikils kirkna- og bænhússkrárverkefnis á landsvísu. Til viðbótar má nefna, að Steinunn Kristjánsdóttir fornleifafræðingur stjórnaði uppgrefti á kirkju á Þórarinsstöðum í Seyðisfirði eystra og Jesse Byock fornleifafræðingur stjórnaði uppgrefti á kirkju á Hrísbrú í Mosfellsdal. Engar kirkjurannsóknir hafa enn farið fram á Vestfjörðum og myndi frekari rannsókn á Hofsstöðum í Reykhólasveit vera upphaf að slíkum rannsóknum í þessum landshluta, auk þess að auka við þekkingu á byggingarstílum og gerðum slíkra mannvirkja almennt“, segir Guðrún Alda Gísladóttir fornleifafræðingur.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31