Umferð hleypt á Arnkötludalsveg fyrir mánaðamót
Með opnun brúarinnar losna menn við mjóan og holóttan malarveg fyrir Mjóafjörð og fjallveginn yfir Eyrarfjall, sem jafnan lokast í fyrstu snjóum á haustin. Í staðinn kemur breiður malbikaður vegur yfir Mjóafjörð, Vatnsfjarðarháls og Reykjarfjörð framhjá Reykjanesskóla um leið og vetrarleiðin styttist um 32 kílómetra.
Þeir sem aka oft um Djúpveg bíða ekki síður spenntir eftir nýja veginum um Arnkötludal milli Reykhólahrepps og Steingrímsfjarðar. Verktakinn, Ingileifur Jónsson, sagði í samtali við fréttastofuna í morgun að byrjað yrði að leggja klæðningu á þennan 25 kílómetra veg á mánudag. Hann er afar varkár um hvenær hægt verður að hleypa umferð á veginn en segir þó fátt geta komið í veg fyrir að það verði fyrir mánaðamót. Lagning bundna slitlagsins ræðst af veðri. Svo fremi sem ekki bresti á með snjókomu og kulda ætti klæðning vegarins að klárast á næstu 2-3 vikum.
Með Arnkötludalsvegi verða jafnvel stærri tímamót en með tilkomu Mjóafjarðarbrúar því að vetrarleiðin milli Reykjavíkur og Hólmavíkur styttist um 40 kílómetra og þá einnig leiðin til Ísafjarðar, til viðbótar við þá 32ja kílómetra styttingu sem fæst með Mjóafjarðarbrúnni í dag. Vetrarleiðin milli Reykjavíkur og Ísafjarðar er þannig að styttast nú á haustdögum um 72 kílómetra og færist væntanlega af Holtavörðuheiði og Hrútafirði og yfir til Dalasýslu og Reykhólahrepps.
visir.is